Sveitastjórnarkosningar í Írak fóru fram með friðsælum hætti í dag og voru kjörklefar opnir einni klukkustund lengur en til stóð vegna mikils fjölda þeirra sem mætti til að kjósa. Þ.á.m. voru fjölmargri Súnní múslimar, sem sniðgengu síðustu kosningar í landinu.
Þetta eru fyrstu kosningar sem haldnar eru á landsvísu í Írak í fjögur ár og fagna margir því hversu vel þær fóru fram og telja til marks um stöðugleika landsins. Þúsundir hermanna og lögreglumanna stóðu vörð um kjörstaði en hvergi kom til átaka. Forsætisráðherrann Nouri Maliki lýsti því yfir eftir að hann kaus sjálfur að íraska þjóðin gæti í dag fagnað mikilvægum áfangasigri, sá mikli fjöldi sem mætti á kjörstað sýndi fram á „traust Íraska fólksins til ríkistjórnarinnar og til kosninga“ og væri jafnframt „sönnun þess að Írakar lifa nú við raunverulegt öryggi.“
Þá gætu friðsamlegar kosningar einnig stuðlað að samvinnu um það að fleiri hersveitir yfirgæfu landið. Um 15 milljónir Íraka hafa kosningarétt og yfir 14 þúsund manns eru í framboði. Kosið er í 14 héröðum af 18, því ekki er kosið í þeim þremur Kúrdísku héröðum sem hafa sjálfsstjórn auk þess sem kosningum var frestað í olíuhéraðinu Kirkuk.