Sprengjusérfræðingar breska hersins aftengdu í dag 150 kg bílasprengju sem Írski lýðveldisherinn (IRA) skildi eftir fyrir fjórum dögum nærri kaþólskum grunnskóla í þorpinu Castlewellan, suður af Belfast.
Óttast var þegar lögreglan fann sprengjuna að andófsmenn hefðu komið fyrir fleiri álíka sprengjum í nágrenninu, en þegar engin ummerki fundust um það hófust verkfræðingar hersins handa við að aftengja sprengjuna með fjarstýrðu vélmenni.
Liðsmenn IRA hringdu í lögreglu til að tilkynna um grófa staðsetningu sprengjunnar, sem vakti grunsemdir um að ætlunin væri að leiða lögregluna í gildru, í samræmi við þær brellur sem IRA hefur áður beitt. Síðar tilkynntu IRA menn hinsvegar í öðru símtali að þeir hefðu skilið sprengjunna eftir nokkuð fjarri tilætluðu skotmarki, sem var herstöð í nágrannaþorpinu Ballykinlar, vegna þess að öryggisgæsla þar reyndist meiri en þeir höfðu gert ráð fyrir.
Írski lýðveldisherinn skipuleggur enn stöku árásir í Norður-Írlandi en síðan mannskæðasta árás þeirra var framin í Omagh 1998, þegar 20 létust, aðallega konur og börn, hefur þeim ítrekað mistekist fyrirætlanir sínar um bílasprengjur.
AP fréttaveitan hefur eftir lögreglumanninum sem stjórnaði aðgerðum í Castlewellan að liðsmenn IRA hafi „stofnað lífi allra, karla, kvenna og barna, í nágrenninu í stórhættu. Þeir hafa einfaldlega ekkert að bjóða samfélaginu.“