Japanar sögðust í morgun myndu hafna hveri þeirri tillögu Alþjóðahvalveiðiráðsins, sem fæli í sér stöðvun vísindahvalveiða í Suðurhöfum þótt þeir fengju á móti að veiða hvali við strendur Japans.
Innan hvalveiðiráðsins hefur verið unnið að málamiðlun milli hvalveiðiþjóða og þeirra þjóða, sem vilja að hvalveiðar verði alfarið bannaðar. Rætt hefur verið um, að Japanir fái heimild ráðsins til að stunda takmarkaðar strandveiðar gegn því að þeir láti af vísindaveiðum sínum í Suðurhöfum. Japanski hvalveiðiflotinn er þar núna og er stefnt að því að veiða 935 hrefnur og 50 langreyðar.
Shigeru Ishiba, sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra Japans, sagði í morgun að japönsk stjórnvöld muni ekki fallast á tillögur um að stöðva vísindaveiðarnar. Hann sagði hins vegar, að Japanar myndu skoða tillöguna vandlega.
Samkvæmt tillögunni yrðu Japönum heimilt að stunda strandveiðar í atvinnuskyni á fjórum svæðum í fimm ár. Veiðarnar væru háðar því skilyrði að bátar færu úr höfn að morgni og snéru aftur að kvöldi. Þá yrðu afurðirnar nýttar innanlands.
Á móti kæmi, að Japanar drægju smátt og smátt úr vísindaveiðum á hrefnu í Suðurhöfum og legðu af áform um veiðar á langreyði og hnúfubak.
Fjallað verður um málið á fundi Alþjóðahvalveiðráðsins í Róm í mars.