Obama: Ég klúðraði þessu

Barack og Michelle Obama heimsóttu barnaskóla í Washington í dag.
Barack og Michelle Obama heimsóttu barnaskóla í Washington í dag. Reuters

Barack Obama, Bandaríkjaforseti, viðurkenndi í sjónvarpsviðtali að hann hefði gert mistök þegar upp komst, að sá sem hann tilnefndi í embætti heilbrigðisráðherra hafði ekki greitt skatt af hlunnindum.  „Ég held að ég hafi klúðrað þessu," sagði Obama við CNN sjónvarpsstöðina.

„Ég vil ekki gefa þjóðinni það til kynna, að það séu tvennskonar reglur sem gilda, einar fyrir valdamikið fólk og aðrar fyrir venjulegt fólk sem vinnur alla daga og borgar skattana sína," sagði Obama í viðtalinu.

„Ég held að þetta hafi verið mistök. Ég held að ég hafi klúðrað þessu. Og ég ber ábyrgð á því og við munum tryggja að þetta endurtaki sig ekki."

Tom Daschle, sem Obama útnefndi í embætti heilbrigðisráðherra, dró sig í hlé í dag en í ljós kom að hann hafði ekki talið fram sem hlunninndi þegar hann hafði bíl og einkabílstjóra til umráða í starfi sem stjórnarformaður fyrirtækis.

Obama hefur í dag verið í viðtölum við allar helstu sjónvarpsstöðvar í Bandaríkjunum.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka