Enn bónusar í breskum bönkum

Hátt settir starfsmenn Royal Bank of Scotland ættu ekki að …
Hátt settir starfsmenn Royal Bank of Scotland ættu ekki að vera á flæðiskeri staddir.

Talið er að þúsundir bankamanna og verðbréfamiðlara innan Royal Bank of Scotland (RBS), muni á næstunni fá stóra kaupauka. Bankanum var fyrir skemmstu bjargað af breska ríkinu, með 20 milljarða punda framlagi af skattfé.

Talið er að bónusar upp á tugi milljóna punda verði greiddir út til yfirmanna, sem búi sig nú sumir hverjir undir að fá „sex stafa tölur“ borgaðar út, eins og sagt er frá á vefútgáfu breska blaðsins Daily Telegraph.

Sagt er að embættismenn innan breska fjármálaráðuneytisins, sem stjórna hlutum ríkisins í bönkum sem hefur verið bjargað frá falli, hafi samþykkt einhverja af þessum kaupaukum. Ónefndur heimildarmaður er sagður hafa tjáð blaðamanni The Times að það væri ekki ófrávíkjanleg andstaða við bónusa, heldur væri rýnt sérstaklega í hvern og einn þeirra. „Tölurnar verða mjög háar og mjög erfitt verður fyrir allan almenning að skilja þær.“

Haft er eftir John McFall, formanni þingnefndar fulltrúadeildar breska þingsins, að sumir þessara banka dvelji nú í skugganum, en telji að lífið verði aftur farið að ganga sinn vanagang innan örfárra ára. „En lífið hefur breyst og þeir þurfa að horfast í augu við það. Þeir þurfa tengingu við raunveruleikann.“ Stephen Hester, nýr bankastjóri RBS, er sagður fylgjandi því að greiða kaupauka út í hlutabréfum, frekar en í reiðufé, til þess að forðast reiði almennings.

RBS er nú í 68% eigu hins opinbera.

Bankinn á að birta ársreikninga sína fyrir 2008 innan þriggja vikna og er búist við því að hann tilkynni um sjö til átta milljarða punda tap á árinu. Búist er því því að tilkynnt verði um kaupaukana skömmu eftir það. Þó svo ráðherrar í ríkisstjórn Bretlands hafi statt og stöðugt haldið því fram að engir kaupaukar yrðu greiddir til stjórnenda fallinna banka, hefur ekki verið tekið fyrir slíka kaupauka til starfsmanna á lægri stigum.

Peter Ibbetsson, stjórnandi smáfyrirtækjasviðs RBS neitaði þráfaldlega að tjá sig um málið í þættinum Today á útvarpsstöðinni BBC Radio 4 í morgun.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert