Fréttaskýring: „Eruð þið á leiðinni í skólann, stúlkur?“

Konur íklæddar búrkum eru enn algeng sjón á götum Kabúl.
Konur íklæddar búrkum eru enn algeng sjón á götum Kabúl. Reuters

Árásir með brennisteinssýru, morð og nauðganir eru meðal þess sem aftrar sífellt fleiri námfúsum stúlkum frá skólagöngu í Afganistan. Skólastúlkur halda sig í auknum mæli heima af öryggisástæðum, einnig í höfuðborginni Kabúl, sem þó er talin með frjálslyndari stöðum í landinu. Talið er að vaxandi ofbeldi og áreiti geti valdið því að heil kynslóð afganskra stúlkna verði af menntun þar sem þær neyðist til að halda sig heima.

Með sýru að vopni

Í nóvember var brennisteinssýru skvett á hóp stúlkna í borginni Kandahar í suðurhluta Afganistans. Stúlkurnar voru á leið í skólann þegar menn á mótorhjóli stöðvuðu þær. „Eru þið á leiðinni í skólann, stúlkur?“ spurðu mennirnir.

Svo fór hina 16 ára Atifa Biba að svíða í andlitið. Undarleg lykt gaus upp um leið og húð hennar byrjaði að bráðna. Vinkona hennar reyndi að þurrka af henni vökvann en þá fékk hún líka gusu framan í sig. Stúlkurnar brenndust margar illa í andliti og voru lagðar inn á sjúkrahús.

Markmiðið með árásinni var að hræða stúlkur frá skólagöngu en nú hafa flest fórnarlambanna samt snúið aftur. Þær segjast staðráðnar í að mennta sig jafnvel þó þeim berist hótanir frá árásarmönnunum, sem sitja í fangelsi.

Í valdatíð talibana í Afganistan frá miðjum tíunda áratugnum og fram að innrás Bandaríkjahers árið 2001 var konum ekki leyft að vinna úti og ferðafrelsi þeirra var skert. Viðhorf ólíkra hópa talibana til stöðu kvenna eru mismunandi. Allir vilja þeir þó koma að þröngri túlkun sinni á sjaría-lögunum sem setur höft á frelsi kvenna, m.a. til mennta.

Afganska þingkonan Shukria Barakzai fær reglulega morðhótanir fyrir að halda uppi umræðum um málefni kvenna. Barakzai segir í samtali við breska dagblaðið The Guardian að á meðan henni sé ráðlagt að halda sig heima fái stríðsherrar á þinginu, sem einnig hafi fengið morðhótanir, umsvifalaust brynvarða bíla til afnota, vopnaða verði og öruggt húsnæði frá ríkisstjórninni.

Þingið samansafn ódæðismanna

Að sögn Barakzai finna afganskar konur í auknum mæli fyrir óöryggi nú þegar vestrænir og afganskir embættismenn leita eftir samvinnu við stríðsherra, í von um aukinn stöðugleika og frið. Barakzai segir að fleiri hópar ógni frelsi kvenna en talibanar. „Þingið er samansafn af stríðsherrum, eiturlyfjabarónum og glæpaforingjum,“ segir hún.

Hún segir jafnframt algengt að á hana sé kallað „drepum hana“ þegar hún taki til máls í þinginu, hótanir frá starfsfélögum á þingi séu tíðar.

Óttast er að afganska þingið sé að verða íhaldssamara hvað konur varðar. „Hugmyndir talibana eru fólki okkar eðlilegar, sérstaklega hugmyndir þeirra um konur,“ segir Barakzai.

„Við höfum miklar áhyggjur af því að réttur okkar muni skerðast, nú þegar yfirvöld eiga í viðræðum við talibana. Við konur megum ekki vera fórnin sem færð verður fyrir frið við talibana,“ segir Shinkai Karokhail, þingkona í Kabúl. Hún gagnrýnir jafnframt að af þeim 68 konum sem eigi sæti á afganska þinginu ræði aðeins fimm þeirra gagnrýnið um stöðu kvenna.

Sýran bræðir

Sýruárásir eru ofbeldi þar sem sýru er skvett í andlitið á fólki. Meirihluti fórnarlambanna er konur og margar þeirra undir 18 ára aldri. Oftast er notast við brennisteinssýru, sem er m.a. að finna í rafhlöðum.

Húð bráðnar undan sýrunni og stundum koma beinin í ljós undan skinninu en svo getur einnig farið að beinin leysist upp. Fari sýran í augun veldur hún varanlegum skaða. Mörg fórnarlamba sýruárása hafa misst sjón á öðru eða báðum augum.

Afleiðingarnar eru einnig sálrænar og félagslegar. Mörg fórnarlambanna einangrast og eru útskúfuð úr samfélaginu. Slíkar árásir eiga ekki rætur að rekja til íslam eða annarra trúarbragða en eru algengar m.a. í Kambódíu, Afganistan, Indlandi, Bangladess, Pakistan og öðrum Asíulöndum.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert