Það kann að hljóma of gott til að vera satt en vefurinn Freecycle býður notendum að nálgast vörur af ýmsu tagi án endurgjalds.
Má rekja þetta til þeirrar hugmyndar að baki vefnum að endurvinna nytjahluti með því að koma þeim aftur í umferð, í stað þess að henda þeim.
Enska orðið yfir hugmyndafræðina er „freecycle“, samanborið „recycle“, sem er yfir endurvinnslu, og mætti vel nota íslenska orðið endurnotkun yfir þessa hugsun.
Hönnuðir síðunnar eru staðsettir í Arizona og eru notendur þegar orðnir um sex milljón talsins.
Hlutir á borð við mynddiska öðlast með síðunni nýtt líf í stað þess að verða hent.
Litið er á endurnotkun af þessu tagi sem leið til að spara við mikinn urðunarkostnað, svo sem í New York-ríki, þar sem flytja þarf sorp til fjarlægra urðunarstaða með tilheyrandi urðunarkostnaði sökum þess að landfyllingarkostir ríkisins hafa verið fullnýttir.
Geta notendur auglýst eftir vörum á vefnum og þannig náð sér í ókeypis nytjahluti á borð við fatnað og sjónvörp.