96 látist í skógareldum

Reuters

Að minnsta kosti 96 manns hafa látist í mannskæðustu kjarr- og skógarbrunum í sögu Ástralíu. Auk þess hafa 640 heimili eyðilagst í brununum. Eldarnir eru í Victoriu í Suðausturhluta landsins. Skæðustu eldarnir eru norðvestur af borginni Melbourne. Þetta kemur fram á fréttavef BBC og Yahoo.

Þúsundir uppgefinna sjálfboðaliða slökkviliðsins berjast enn við um þrjátíu skógarelda. Miklir hitar hafa verið í Ástralíu, eða allt að 48 gráður, og hvassviðri sem hefur torveldað slökkvistarfið. Hitinn virðist nú vera að lækka, en yfirvöld óttast að ekki verði hægt að ná almennilegum tökum á eldinum fyrr en rignir af krafti. 

Heilu bæirnir hafa eyðilagst í eldinum. Chris Harvey, sem komst lífs af frá Kinglake sagði í samtali við AFP: „Þetta var hræðilegur dagur. Þetta mun líta út eins og Hiroshima, því þetta líkist því að fallið hafi kjarnorkusprengja á bæinn. Það eru dauð dýr á víð og dreif á veginum.“

Daniel Andrews, heilbrigðisráðherra Ástralíu, segir tæplega 80 manns hafa leitað sér lækninga á spítölum vegna brunasára. Haft er eftir John Coleridge á Aldred spítalanum, sem er stærsti spítalinn á brunasvæðinu, að brunasárin séu af öllum gerðum, allt frá því að vera blöðrum á iljum fólks, sem flúið hafi yfir brennandi jörðina,  upp í að vera lífshættulegir þriðja stigs brunar. Segir hann a.m.k. þremur brunasjúklingum vart hugað líf.

Lögreglan segir ljóst að rekja megi hluta eldanna til íkveikju og að þeir sem beri ábyrgð á þeim muni verða ákærðir fyrir manndráp eða morð. Þetta kemur fram á vef AFP. „Ljóst má vera að sumir eldanna eiga sér enga náttúrulega skýringu og íkveikja því eina skýringin,“ segir Kieran Walsche, yfirmaður lögreglunnar í Victoria.

Afbrotafræðistofnun Ástralíu gaf í síðustu viku út skýrslu þar sem fram kom að 20-30 þúsund þeirra kjarrelda sem upp koma í landinu árlega séu af völdum íkveikju. „Brennuvargar eru hryðjuverkamenn þessa lands. Þeir sigla undir fölsku flaggi og við verðum að vera sérlega vakandi fyrir þessari hættu, “ hefur AFP eftir Mike Rann, forsætisráðherra Suður-Ástralíu. Haft er eftir Nathan Rees, forsætisráðherra Nýja Suður-Wales að brennuvargar geti átt yfir höfði sér 25 ára dóm fyrir uppátæki sitt.  

Slökkviliðsmaður að störfum í grennd við Melbourne.
Slökkviliðsmaður að störfum í grennd við Melbourne. MICK TSIKAS
Reuters
Reuters
Reuters
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka