Sænska sjónvarpsstöðin TV 4 upplýsti í kvöld, að kínverskur undirverktaki sænsku húsgagnaverslunarkeðjunnar Ikea noti dún, sem reittur hefur verið af lifandi gæsum.
Sjónvarpsstöðin skýrði í síðustu viku frá því, að 34 af 39 dúnframleiðendur í Póllandi, Ungverjalandi og Kína noti dún, sem reittur er af lifandi gæsum en slíkt er afar sársaukafullt fyrir fuglana.
Ikea, þar á meðal Ikea á Íslandi, sendi sl. þriðjudag frá sér yfirlýsingu þar sem fullyrt var að dúnn og fiður í framleiðsluvörum Ikea sé aldrei reitt af lifandi dýrum. Í yfirlýsingunni kom fram að fiðrið væri eingöngu af alifuglum og þeim væri lógað á mannúðlegan hátt áður en fiðrið sé tekið. Jafnframt kom fram að fiðrið sem Ikea í Evrópu noti komi frá Kína.
Tveimur dögum síðar, á fimmtudag, kom önnur yfirlýsing frá Ikea sem er sögð vera leiðrétting á fyrri fréttatilkynningu vegna nýrra upplýsinga sem voru að berast í hús frá Ikea í Svíþjóð. Ikea muni ekki undir neinum kringumstæðum starfa með birgjum sem verði uppvísir að því að taka fiður og dún af lifandi fuglum.
Ikea segir nú, að reglur fyrirtækisins hafi verið brotnar. Segir Marianne Barner, talsmaður Ikea, að fyrirtækinu þyki leitt að hafa veitt rangar upplýsingar.