Ríkisstjórn Noregs lagði til í dag að lagðir yrðu 100 milljarðar norskra króna, sem svarar 1.600 milljörðum íslenskra, í sjóði sem nota á til að efla banka og stuðla að lánveitingum til fyrirtækja og einstaklinga.
Jens Stoltenberg, forsætisráðherra Noregs, sagði að fjárhæðinni yrði skipt jafnt í tvo sjóði. Annar þeirra ætti að styrkja bankana og hinn yrði notaður til að veita fyrirtækjum lán. „Sjóðirnir tveir eiga að auðvelda lán til fyrirtækja og fjölskyldna og stuðla að stöðugleika á fjármálamarkaðnum,“ sagði Stoltenberg.
Kristin Havorsen, fjármálaráðherra Noregs, sagði að stjórnin myndi krefjast þess að laun og kaupaukar bankastjóra yrðu takmarkaðir.
Norska stjórnin ákvað í janúar að auka útgjöld ríkisins og lækka skatta til að blása lífi í efnahaginn. Þær aðgerðir eru metnar á 20 milljarða norskra króna, sem svarar 330 milljörðum íslenskra.