Dularfullur grísadauði

Yfirvöld í Shanxi héraði í Kína rannsaka nú dularfullan grísadauða í héraðinu. Rúmlega 1.000 grísir í 10 þorpum í héraðinu hafa drepist að undanförnu.

Kínverska fréttastofan Xinhua segir að 1.056 grísir hafi fundist dauðir síðustu dag, flestir yngri en mánaðargamlir.

Kínverjar eru sérstaklega á verði gagnvart sjúkdómum á svínabúum eftir áföll í greininni síðustu ár. Yfirvöld óttast að faraldur kunni nú að brjótast út en hundruð þúsunda grísa drápust af völdum svínapestar sem geisaði í landinu fyrir tveimur árum. Þá urðu margir að bregða búi og verð á svínakjöti rauk upp úr öllu valdi vegna minnkandi framboðs.

Xinhua fréttastofan segir að heilbrigðisyfirvöld rannsaki nú grísadauðann í Shanxi héraði og hafi brennt dauðu grísina. Ekki er talið að sýkt kjöt hafi ratað í verslanir eða veitingahús.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert