Yfir 130 látnir í Ástralíu

Fjöldi slökkviliðsmanna glíma nú við eldana í Ástralíu.
Fjöldi slökkviliðsmanna glíma nú við eldana í Ástralíu. Reuters

Talið er að a.m.k. 131 sé látinn vegna skógareldanna sem nú geisa í Ástralíu, að sögn lögreglu í dag. Yfir 750 hús hafa eyðilagst og tugþúsundir hektara hafa brunnið frá því að eldurinn kom upp á laugardag. Tala látinna fer stöðugt hækkandi eftir því sem björgunarmenn komast inn á ný og ný sviðin svæði.

Eldarnir eru þeir mannskæðustu í sögu Ástralíu, og hafa þurrkað út heilu bæina og fjölskyldurnar. Mikil reiði hefur vaknað vegna þess að grunað er að sumir eldanna hafi verið kveiktir af manna völdum. Hefur forsætisráðherra landsins, Kevin Rudd, sakað brennuvargana um „fjöldamorð".

Ein þeirra sem slapp naumlega undan eldunum er Sonja Parkinson sem ásamt kornungum syni sínum leitaði vars í lækjarsprænu þar sem þau breiddu vott teppi yfir sig, meðan eldarnir gengu yfir. A.m.k. 32 létust í bænum þar sem þau bjuggu.

Enn loga eldar á 34 stöðum í Viktoríu fylki, þar sem allir hinna látnu héldu sig. Sveitarfélög í fylkinu, sem hingað til hafa sloppið, eru við öllu búin þar sem eldarnir gætu valdið frekari eyðileggingu.

Ríkisstjórn Nýja Sjálands hét því í dag að veita um 258 þúsund bandaríkjadala eða um 30 milljónir króna sem byrjunarupphæð í landssöfnun fyrir fórnarlömb þeirra svæða sem verst hafa orðið úti í skógareldunum. Þá voru 100 slökkviliðsmenn sendir frá Nýja Sjálandi á vettvang til að aðstoða í baráttunni við eldinn.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert