Gengi hlutabréfa lækkar í New York

Gengi hlutabréfa í bandarískum fyrirtækjum lækkaði verulega í kauphöllinni í New York í dag þrátt fyrir tilkynningu stjórnar Baracks Obama um aðgerðir til að bjarga bönkum.

Fyrr í dag samþykkti öldungadeild Bandaríkjaþings aukin ríkisútgjöld og skattalækkanir til að blása lífi í efnahag landsins. Aðgerðirnar eru metnar á 838 milljarða dollara. Timothy F. Geithner, fjármálaráðherra Bandaríkjanna, tilkynnti einnig endurbætur á aðgerðum til að koma bönkum landsins til bjargar. Hann sagði að samkvæmt nýju áætluninni yrði reynt að verja allt að 2.000 milljörðum dollara til að bjarga bönkunum.

Þrátt fyrir þessi tíðindi lækkaði hlutabréfavísitalan Dow Jones um 4,6%, Standard & Poor um 4,9% og Nasdaq-vísitalan um 4,2%. Markaðssérfræðingar sögðu að svo virtist sem fjárfestar hefðu orðið fyrir miklum vonbrigðum með björgunaráætlunina. 

Frá kauphöllinni í New York.
Frá kauphöllinni í New York. Reuters
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert