Líknardráp veldur uppnámi á Ítalíu

Andlát Eluana Englaro hefur valdið heiftúðugum deilum um „réttinn til að deyja“ á Ítalíu í dag og meðal annars hefur Silvio Berlusconi, forsætisráðherra, staðhæft að konan hafi verið „drepin“.

Lögreglan þurfti að hafa afskipti af andstæðum fylkingum mótmælenda fyrir utan sjúkrahúsið í Udine þar sem konan andaðist á mánudagskvöld, 38 ára að aldri og þremur dögum eftir að tækin sem höfðu haldið henni á lífi frá 1992 eftir bílslys, voru aftengd.

Faðir hennar hafði bsrist fyrir því í áratug að konunni yrði leyft að deyja en  fréttir af andláti hennar bárust á sama tíma og ítalskir þingmenn ræddu nýja löggjöf sem miðaði að því að halda henni á lífi.

Berlusconi hafði reynt að kollvarpa óskum fjölskyldunnar og freista þess að halda konunni á lífi.

„Eluana lést ekki eðlilegum dauðdaga. Hún var drepinn,“ sagði forsætisráðherrann í skoðanagrein í hægrablaðinu Libero.

Andstæðingar hins hægri sinnaða leiðtoga landsins hafa sakað hann að gera sorgaratburð að pólitísku deilumáli. Páfagarður sem hefur mikil ítök á Ítalíu brást einnig hratt við fréttum af andlátinu og heilbrigðisráðherra Vatíkansins bað guð að fyrirgefa þeim sem bæru „ábyrgðina“.

Dagblöðin voru einnig klofinn í afstöðu til atburðarins. „Þrekraun á enda“. sagði vinstri sinnaða dagblaðið La Republica meðan Il Giornale, hluti af fjölmiðlaveldi Berlusconi, sló upp í fyrirsögn: „Þeir drápu hana“.

Giorgio Napolitano, forseti Ítalíu, hafnaði í síðustu viku neyðarákvæði stjórnvalda sem andstæðu stjórnarskránni en honum var ætlað að koma í veg fyrir að aftengingu tækjanna sem sáu konunni fyrir fæðu og vatni í æð.

Forsætisráðherrann lagði þá til breytingu á stjórnarskránni sem heimilaði honum að gefa út neyðarákvæðið án þess að forseti þyrfti að undirrita það.

Anna Finocchiaro, leiðtogi Demókrataflokksins á ítalska þinginu, deildi hart á stjórnina fyrir að ætla að sniðganga völd þjóðhöfðingjans og fyrir „hraðbrjósta og óábyrgða bræði“ þegar nokkrir þingmenn - eftir að hafa minnst Englaro með mínútuþögn - tóku að hrópa „morðingjar“.

Sakaði Finocchio Berlunsconi um „tilfinningalausa tækifærismennsku“.

Andlát Eluana Englaro bar bráðar að en læknar höfðu átt von á en taugalæknir hennar hafði áætlað að hún myndi tæpast deyja fyrr en 17. febrúar.

Fjölskylda Englaro hafði betur í réttarhöldum þar sem rétturinn féllst á að Englaro myndi aldrei vakna úr dái sínu og að hún hefði sjálft óskað þess að vera ekki haldið á lífi í ljósi ummæla sem hún hafði látið falla þegar náinn vinur féll í dá eftir annað bílslys.

Líknardráp er bannað í lögum á Ítalíu en sjúklingar hafa rétt til að neita læknismeðferð.

Ódagsett fjölskyldumynd adf Eluana Englaro, sem verið hafði í dái …
Ódagsett fjölskyldumynd adf Eluana Englaro, sem verið hafði í dái í 16 ár. Reuters
Líknardrápi mótmælt fyrir utan þinghúsið í Róm.
Líknardrápi mótmælt fyrir utan þinghúsið í Róm. Reuters
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert