Mjótt á munum í Ísrael

Mjótt er á munum á fylgi flokka þeirra Benjamins Netanyahu, fyrrum forsætisráðherra Ísrael og utanríkisráðherrans Tzipi Livni. Ísraelar ganga til þingkosninga í dag.

Yfir 5,2 milljónir eru á kjörskrá en kosið er á yfir 9 þúsund kosningastöðvum vítt og breitt um landið. Var óttast um að veður gæti haft áhrif á kosningaþátttöku. Talið er að kosningarnar muni hafa afgerandi áhrif á framvindu friðarviðræðna í Mið-Austurlöndum.

Undanfarnar vikur hafa skoðanakannanir verið Netanyahu í hag, en hann leiðir hið hægrisinnaða Likudbandalag. Síðustu daga hefur Livni þó sótt á en hún leiðir Kadima flokkinn sem situr við stjórnvölinn sem stendur. Flokkurinn er enn að jafna sig á hneykslismálum sem neyddu Ehud Olmert til að segja af sér sem forsætisráðherra.

Talsverð óvissa ríkir þó um úrslitið þar sem um 20 prósent kjósenda hafa sagst verið óákveðnir í þeim skoðanakönnunum sem gerðar hafa verið. Öryggismál í kjölfar 22 daga stríðs Ísraela gegn Palestínumönnum í síðasta mánuði voru efst á baugi í kosningabaráttunni.

Aukið fylgi Avigdor Lieberman, sem leiðir Yisrael Beitenu flokkinn, í kjölfar sama stríðs hefur vakið töluverða athygli. Lieberman sem er innflytjandi frá Sovétríkjunum, er mikill harðlínumaður, og hefur heitið því að mæta öllum óvinum Ísraelsríkis með járnhnefa. Talið er líklegt að hann muni vera í oddastöðu þegar kemur að myndun nýrrar ríkisstjórnar, en enginn einn flokkur er talinn líklegur til að tryggja sér meira en þriðjung þeirra 120 þingsæta sem eru á hinu ísraelska Knesset þingi.

Kjörstöðum verður lokað kl. 20 í kvöld að íslenskum tíma og er gert ráð fyrir að niðurstöður kosninganna liggi fyrir á morgun.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert