Barack Obama Bandaríkjaforseti varaði á blaðamannafundi þing landsins við stórslysi ef það samþykkti ekki efnahagsáætlun hans í þessari viku. Áætlunin hljóðar upp á 800 milljarða bandaríkjadala, sem eiga að vinna gegn stígandi atvinnuleysi og frekari hruni markaða.
Obama þakkaði þeim sem unnu að gerð áætlunarinnar skömmu eftir að hún komst naumlega í gegn um öldungadeild bandaríska þingsins í gær. Hann hvatti aðra þingmenn til að bregðast skjótt við og samþykkja áætlunina.
Hann sakaði ríkisstjórn forvera síns George W. Bush um að hafa skilið við efnahag landsins þannig að útlit væri fyrir að fjárlagahalli ársins færi yfir eina billjón dollara. Þótt útlitið væri svart mætti það þó ekki koma í veg fyrir að fé sé veitt til að örva atvinnulífið og efnahaginn.
„Afleiðing þess að gera lítið eða ekkert er jafnvel enn meira atvinnuleysi og tekjumissi, og sjálfstrausti. Það gæti aftur breytt hættuástandi í stórslys, og ég neita að láta það gerast," sagði hann. Forsetinn lofaði einnig að „hreinsa til" í skuldum hlöðnu bókhaldi bandarískrar bankastofnanna og gera allt sem þyrfti til að koma landinu á skrið á ný.
Hann hefur gefið þinginu frest til 16. febrúar til að samþykkja áætlunina.