Sjónvarpsstöð brennur í Kína

Þrjátíu hæða háar aðalstöðvar ríkissjónvarpsins í Kína, CCTV brunnu til ösku í eldsvoða í nótt. Húsið, sem er í miðborg Peking, var enn í byggingu en til stóð að taka hinar nýju aðalstöðvar í notkun í október. Talið er að flugeldar sem var skotið í leyfisleysi á loft til að fagna nýju tunglári hafi orsakað eldsvoðann.

Einn slökkviliðsmaður lést eftir að hafa andað að sér eitruðum gufum við slökkviliðsstörfin. Sex eða sjö aðrir slösuðust. Sendi CCTV, sem er stýrt af kínverska kommúnistaflokknum frá sér opinbera afsökunarbeiðni vegna brunans, en slíkt er afar fáheyrt.

Byggingin átti einnig að hýsa menningarmiðstöð og lúxushótel auk sjónvarpsstöðvarinnar og upplýsingatæknimiðstöðvar. Hún stóð aðeins um 200 metrum frá CCTV sjónvarpsturninum sem vakti mikla eftirtekt á ólympíuleikunum í sumar.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert