Atlantshafsbandalagið, NATO, tekur vel í tilboð Dimitri Medvedev, forseta Rússlands, um að fá að flytja hergögn um Rússnesk landsvæði til Afganistans. Þetta kom fram í máli James Appathurai, talsmanns NATO í dag. Hann sagði að nokkur ríki í bandalaginu hafi þegar gert tvíhliða samninga við Rússland um slíka flutninga. „Þetta er merki um að Rússar styðji áfram aðgerðir okkar í Afganistan,“ sagði hann.
Appathurai sagði líka að NATO hafi um nokkra hríð staðið í samningaviðræðum um að fá rússneska flugherinn til að flytja hergögn til Afganistans. Hingað til hefur NATO leigt borgaralegar flugvélar og þyrlur til þess, frá rússneskum og úkraínskum flugfélögum.