Nýjar íkveikjur í Ástralíu

Enn er glímt við skógarelda í Ástralíu.
Enn er glímt við skógarelda í Ástralíu. Reuters

Ástralska lögreglan rannsakar nú nýjar íkveikjur brennuvarga og ránsferðir um sviðin hamfarasvæði, þar sem skógareldar hafa geysað undanfarna daga. Líklegt þykir að a.m.k. 200 manns hafi farist í eldunum.

Eftirlifendur þrýsta mjög á um að snúa til baka til bæja sem urðu eldinum að bráð, en lögregla varar fólk við því þar sem sú hryllingssjón sem blasir við á stöðum eins og smábænum Marysville gæti orðið því ofviða. Enn liggi brunnin lík víða um bæinn, en talið er að um 100 af 500 íbúum hans hafi farist í eldunum. Lögregla gengur nú þar hús úr húsi til að kanna aðstæður og fjarlægja líkamsleifar hinna látnu.

Lögregla hefur upplýst að rannsókn væri að ljúka í máli brennuvargs sem talinn er hafa kveikt eld á Gippsland svæðinu sem er í austurhluta Viktoríufylkis.

Slökkviliðsmenn hafa lýst áhyggjum af því að ræningjar fari ófrjálsri hendi um það sem eftir kann að liggja í yfirgefnum húsum á hamfarasvæðunum. Enn loga skógar- og kjarreldar óhamið á 23 stöðum í fylkinu.  Óttast er að vatnsverndar- og víngerðarsvæði í Yarra dalnum verði eldunum að bráð. Þá gætu eldar nærri bæjarfélögum í Bunyip og Kinglake færst í aukana og ógnað fleiri þorpum ef veðurspár um norðlæga vinda næstu daga rætast. 

Auk hinna látnu segja opinberar tölur að um 500 hafi orðið fyrir líkamsskaða vegna eldanna, yfir 1.000 heimili hafi eyðilagst og um 450 þúsund hektarar lands brunnið. Yfir 5.000 manns eru heimilislausir eftir hamfarirnar.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert