Nýju samkomulagi fagnað í Bandaríkjunum

Harry Reid, leiðtogi demókrata í öldungadeildinni (fyrir miðju) ræðir við …
Harry Reid, leiðtogi demókrata í öldungadeildinni (fyrir miðju) ræðir við blaðamenn ásamt þingmönnunum Susan Collins, Max Baucus og Arlen Specter. Reuters

Þingmenn í öldungadeild og fulltrúadeild Bandaríkjaþings náðu í dag málamiðlunarsamkomulagi um 789 milljarða dollara aðgerðir til að endurreisa efnahag landsins.

Harry Reid, leiðtogi demókrata í öldungadeildinni, fagnaði samkomulaginu, sagði það verja eða búa til 3,5 milljónir starfa. Gert er ráð fyrir því að þingdeildirnar greiði atkvæði um aðgerðirnar á næstu dögum. Reid kvaðst hafa rætt samkomulagið við Nancy Pelosi, forseta fulltrúadeildarinnar, og hún styddi það.

Litið er á samkomulagið sem mikinn sigur fyrir Barack Obama Bandaríkjaforseta. Samkvæmt málamiðlunarsamkomulaginu verður kostnaðurinn af aðgerðunum minni en samkvæmt lagafrumvörpum sem þingdeildirnar höfðu samþykkt. Í nýsamþykktu frumvarpi öldungadeildarinnar var gert ráð fyrir því að kostnaðurinn yrði 835 milljarðar dollara, en 819 milljarðar í frumvarpi fulltrúadeildarinnar.

Susan Collins, ein af þremur repúblikönum sem studdu frumvarpið í öldungadeildinni, sagði að málamiðlunarsamkomulagið fæli í sér aukin útgjöld og skattalækkanir að andvirði 789 milljarða dollara. Um 35% heildarfjárhæðarinnar eru skattalækkanir.

Stuðningsmenn aðgerðanna spá því að þær verði samþykktar endanlega áður en frestur, sem Obama hafði gefið þinginu, rennur út á mánudaginn kemur.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert