41 árs gamall karlmaður af makedónískum uppruna lést af sárum sínum eftir að hafa verið skotinn og skorinn á háls í slagsmálum í norðvesturhluta Kaupmannahafnar í gærkvöld. Morðið þykir sérstaklega ofbeldisfullt og leitar lögregla nú árásarmannanna, að sögn Berlingske tidende.
Hafa yfirvöld staðfest að maðurinn var skotinn í bakið og að auki skorinn á háls. Samkvæmt vitnum hurfu þrír árásarmenn af vettvangi á skellinöðru og í bílaleigubíl. Lögregla hefur lagt hald á bílaleigubíl sem hún telur mögulega vera bílinn sem notaður var.
Lögregla segir að annað hvort hafi fórnarlambið verið lokkað út á götu eða leitað þar uppi en ljóst þykir að morðið tengist einhvers konar uppgjöri, sem ekki er vitað um ástæðuna fyrir. Ekki hefur fengist nákvæm lýsing á árásarmönnunum en samkvæmt vitnum voru þeir dökkklæddir. Fundist hafa tvö skotvopn sem lögregla mun rannsaka.
Fórnarlambið fæddist í Makedóníu en bjó í Danmörku nær allt sitt líf.