Svipmynd: Í stríði við stjórnvöld í Kreml

Boris Berezovsky.
Boris Berezovsky. Reuters

Rússneski kaupsýslumaðurinn Boris Berezovsky, sem í gær fullyrti á Sky sjónvarpsstöðinni að rússneskir auðmenn, tengdir rússneskum stjórnvöldum, hefðu stundað peningaþvætti á Íslandi, hefur oft vakið athygli fyrir yfirlýsingar sínar og ásakanir í garð ráðamanna í Kreml. Þeir hafa einnig reynt af megni að koma rússneskum lögum yfir Berezovsky, sem hefur verið landflótta í tæpan áratug.

Berezovsky, sem er 63 ára að aldri, var á sínum tíma einn af ólígörkunum svonefndu, mönnum, sem auðguðust gríðarlega í byrjun tíunda áratugar síðustu aldar þegar reynt var í einni svipan að byggja upp markaðskerfi í Rússlandi á rústum kommúnísks hagskipulags. 

Til þessa hóps töldust m.a. Mikhaíl Khodorkovskí, Vladímír Gúsinskí, Vladímír Potanín og Alexander Smolenskí auk Berezovskís. Sumir  þessara manna náðu jafnframt miklum áhrifum innan rússneska stjórnkerfisins, svo miklum að ýmsir töldu þá á tímabili stjórna landinu í raun. Þeir uxu að áhrifum í skjóli Bórisar Jeltsíns, þáverandi forseta Rússlands en þegar Vladímír Pútín tók við forsetaembættinu árið 2000 breyttist hagur þeirra á svipstundu.

Auðgaðist á bílabraski

Berezovsky er menntaður stærðfræðingur en hann auðgaðist á því að flytja inn Mercedes Benz bíla til Rússlands. Þá eignaðist hann olíufélagið Sibneft ásamt Roman Abromóvítsj, eiganda enska knattspyrnuliðsins Chelsea, og meirihluta í ORT, stærstu sjónvarpsstöð Rússlands. Hann beitti sjónvarðsstöðinni m.a. purrkunarlaust í þágu Jeltsíns í aðdraganda forsetakosninganna árið 1996. Þá studdi hann einnig Pútín sem eftirmann Jeltsíns.

En þegar Pútín tók við völdum í ársbyrjun 2000 hóf hann strax að draga úr pólitískum áhrifum óligarkanna. Berezovsky reyndi þá að skipuleggja pólitískt andóf gegn forsetanum sem svaraði með því að láta hefja rannsókn á viðskiptum kaupsýslumannsins. Berezovsky sá þá sitt óvænna og flúði land árið 2001, fyrst til Frakklands og síðan til Bretlands þar sem hann fékk hæli sem pólitískur flóttamaður árið 2003.

Þess má geta, að Míkhaíl Khodorkovskí, sem var á sínum tíma aðaleigandi olíufélagsins Yukos og ríkasti maður Rússlands og hélt áfram pólitískri baráttu gegn Pútín, situr nú í fangabúðum í Síberíu og afplánar 9 ára fangelsisdóm fyrir skattsvik og fleiri afbrot. 

Berezovsky var ákærður í Rússlandi árið 2003 fyrir stórfelld fjársvik í tengslum við þjófnað á bílum frá fyrirtækinu AvtoVaz, stærsta bílaframleiðanda Rússlands.  Rússneska ríkissaksóknaraembættið krafðist þess að bresk stjórnvöld framseldu Berezovsky til Rússlands en því höfnuðu Bretar. Fleiri ákærur voru lagðar fram á hendur Berezovsky og hann var dæmdur haustið 2007 í sex ára fangelsi að sér fjarverandi fyrir að svíkja stórfé út úr rússneska ríkisflugfélaginu Aeroflot. 

Þá hafa stjórnvöld í Sviss, Hollandi og Brasilíu einnig rannsakað ásakanir á hendur Berezovsky um stórfellt peningaþvætti. Berezovsky hefur látið sér fátt um finnast og segir að öll þessi mál séu runnin undan rifjum stjórnvalda í Moskvu.

Vill Pútín frá völdum

Berezovsky hefur reynt að grafa undan rússneskum stjórnvöldum með ýmsum hætti og hefur aldrei farið leynt með að takmark hans sé að koma Pútín og félögum hans frá völdum.

Berezovsky hefur ítrekað kallað Pútín  glæpamann og hryðjuverkamann í viðtölum við fjölmiðla. Árið 2007 sagðist hann í viðtali við breska blaðið Guardian vera að undirbúa byltingu í Rússlandi í þeim tilgangi að koma Pútín frá. Þá var Rússum nóg boðið og ákærðu Berezovsky formlega fyrir valdaránssamsæri og kröfðust á ný framsals Berezovkys en Bretar höfnuðu því.

Bendlaður við morðsamsæri

Morðið á rússneska útlaganum Aleksander Litvínenkó í Lundúnum undir lok ársins 2006 vakti heimsathygli en eitrað var fyrir Litvínenkó með geislavirku efni. Litvínenkó starfaði hjá rússnesku leyniþjónustunni áður en hann flúði til Bretlands en þeir Berezovsky áttu talsverð samskipti í Lundúnum. Litvínenkó fullyrti m.a. árið 2003 að Rússar áformuðu að myrða Berezovsky í Lundúnum. 

Bresk stjórnvöld grunuðu að rússneski kaupsýslumaðurinn Andrej Lugovoj, sem um tíma starfaði fyrir rússnesku  leyniþjónustuna, hefði komið geislavirka efninu fyrir í tebolla Litvínenkós þegar þeir hittust á veitingahúsi í Lundúnum haustið 2006. Kröfðust Bretar þess árið 2007 að Lugovoj yrði framseldur til Bretlands. Því höfnuðu Rússar og Lugovoj hélt í kjölfarið blaðamannafund í Mosvku þar sem hann sakaði Berezovsky um að tengjast morðinu á Lítvínenkó og einnig morðinu á rússnesku blaðakonunni Önnu Politkovskaju í Moskvu. Hefðu morðin verið liður í ófrægingarherferð gegn Pútín og stjórn hans á alþjóðavettvangi.  

En Berezovsky segir að öll þessi mál séu runnin undan rifjum Pútíns og félaga hans, sem séu reiðubúnir að ryðja úr vegi öllum þeim, sem  þeir skilgreinda sem óvini Rússlands. Sjálfur segist Berezovsky vera í stöðugri lífshættu. 

Þannig upplýsti Berezovsky í ágúst 2007, að hann hefði þá um sumarið flúið land um tíma samkvæmt ráðleggingum bresku lögreglunnar Scotland Yard, sem hafi komið í veg fyrir að reynt yrði að myrða hann.

Sagðist Berezovsky hafa yfirgefið Bretland með hraði en komið aftur til landsins viku síðar eftir að Scotland Yard hafði samband við hann og sagði óhætt fyrir hann að koma aftur.

Breska ríkisútvarpið BBC segir, að Berezovsky hafi breytt húsi, sem hann keypti í Surrey af plötusnúðnum Chris Evans, í hálfgert virki með skotheldu gleri í gluggum, öflugu eftirlitskerfi og sérstyrktum stáldyrum.

Viðtalið við Berezovsky á Sky

Boris Berezovsky í Lundúnum.
Boris Berezovsky í Lundúnum. Reuters
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert