Barack Obama, Bandaríkjaforseti, sagði í dag að samþykkt Bandaríkjaþings á 787 milljarða dala fjárframlagi til efnahagsaðgerða markaði tímamót á leið Bandaríkjamanna til efnahagsbata. Sagðist Obama í vikulegu útvarpsávarpi sínu myndu staðfesta frumvarpið sem lög innan skamms.
Báðar þingdeildir Bandaríkjaþings samþykktu í gærkvöldi og nótt breytta útgáfu af efnahagsmálafrumvarpinu. Þykir það mikill sigur fyrir Obama, sem lagði þunga áherslu á að þingið afgreiddi málið fyrir vikulokin. Honum tókst þó ekki að afla stuðnings repúblikana við aðgerðirnar eins og hann hafði vonast til.
Obama sagðist viss um að aðgerðirnar myndu skapa yfir 3,5 milljónir starfa á næstu tveimur árum, örva fjárfestingu bæði einstaklinga og fyrirtækja og leggja nýjan grundvöll undir varanlegan hagvöxt.
Samkvæmt frumvarpinu verður 120 milljörðumd ala varið til að byggja upp innviði, svo sem vegi, lestarkerfi og fjarskiptakerfi. 20 milljörðum verður varið til fjárfestinga í endurnýjanlegum orkugjöfum og 11 milljörðum til að endurnýja raforkuflutningskerfi Bandaríkjanna. Þá er gert ráð fyrir skattalækkunum, sem um 95% heimila munu njóta og tugum milljarða verður varið til að styrkja velferðarkerfið.
Þá er einnig ákvæði, sem demókratar í öldungadeild Bandaríkjaþings settu inn í frumvarpið um að forstjórar fyrirtækja, sem fá opinbera fjárstyrki, njóti ekki bónusa og annara launaauka.