Chávez getur verið forseti áfram

Íbúar Venesúela samþykktu í þjóðaratkvæðagreiðslu í gær tillögu um að gera breytingu á stjórnarskrá landsins, sem afnemur m.a. ákvæði um að forseti landsins geti aðeins gegnt embætti í tvö kjörtímabil. Þetta þýðír að Hugo Chávez, forseti landsins, getur boðið sig fram á ný þegar núverandi kjörtímabili lýkur árið 2012.

Þegar búið var að telja 94% atkvæða höfðu 54% samþykkt breytingarnar, að sögn yfirkjörstjórn landsins. 

Chávez segir að hann þurfi að gegna embættinu áfram til að tryggja það sem hann kallar sósíalíska byltingu í Venesúela. Gagnrýnendur forsetans segja hins vegar að verið sé að gera forsetaembættið allt of valdamikið. 

„Dyr framtíðarinnar standa galopnar," sagði Chávez þegar hann ávarpaði mannfjöldann af svölum forsetahallarinnar í Caracas í nótt þegar atkvæðatölurnar voru birtar.  

„Árið 2012 verða forsetakosningar og ef guð tekur ekki aðra ákvörðun, ef þjóðin tekur ekki aðra ákvörðun, er þessi hermaður þegar í framboði." 

Þetta er í annað skipti sem íbúar Venesúela greiða atkvæði um tillögu um af afnema ákvæði um kjörtímabil forseta. Tillagan var meðal 69 tillagna um breytingar á stjórnarskrá landsins, sem Venesúelabúar höfnuðu árið 2007.

Chávez bíður nú það verkefni að takast á við versnandi efnahagsástand en efnahagur landsins er mjög háður olíuútflutningi. Verðbólga í Venesúela er sú mesta í Suður-Ameríku og einnig eru vaxandi flokkadrættir og glæpatíðni í landinu.  

Hugo Chavez veifar til mannfjöldans framan við Miraflores höllina í …
Hugo Chavez veifar til mannfjöldans framan við Miraflores höllina í Caracas í nótt. Reuters
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert