Tveimur eldflaugum Palestínumanna var skotið snemma í morgun á suðurhluta Ísraels frá norðurenda Gaza-svæðisins. Eldflaugarnar ollu ekki neinu manntjóni þegar þær sprungu að sögn talsmanns ísraelska hersins.
Eldflaugarnar voru skammdrægar. Önnur lenti á óbyggðu landi en hin á bújörð og olli þar litlu tjóni. Árásirnar voru gerðar þrátt fyrir yfirlýst vopnahlé frá 18. janúar síðastliðnum. Vopnahléinu var komið á eftir þriggja vikna hernaðaraðgerðir ísraelska hersins á Gaza-svæðinu. Í þeim féllu 1.330 Palestínumenn.
Ehud Olmert forsætisráðherra Ísraels ráðfærði sig í gær við fulltrúa í vopnahlésviðræðunum sem Egyptar komu á fót vegna átakanna á Gaza. Á laugardag lýsti hann því yfir að samkomulag kæmi ekki til greina nema Gilad Shalit, ísraelskur hermaður sem handtekinn var 2006, yrði látinn laus.