Albanar fögnuðu ákaft í Kosovo í dag en eitt ár er liðið frá því landið lýsti yfir sjálfstæði frá Serbíu. Í höfuðborginni, Pristinu, tóku þúsundir manna þátt í fagnaðarlátunum með söng og tónlist. Veifaði fólkið fánum og flöggum sem á stendur „Til hamingju með afmælið Kosovo". Kosovo lýsti yfir sjálfstæði með stuðningi Bandaríkjamanna og Evrópusambandsins, en þvert á hávær mótmæli Rússa og Serba. En þrátt fyrir sjálfstæði er staða almennings í landinu erfið. Þar er gríðarlegt atvinnuleysi og spilling og skipulögð glæpastarfsemi hefur grafið undan samfélaginu.
Um 90% íbúa Kosovo eru af albönskum uppruna og var ríkið hluti Serbíu, sem áður tilheyrði Júgóslavíu er leið undir lok 1992. Um 10.000 manns féllu í átökunum 1998-1999 þegar serbneskar hersveitir
reyndu að kveða niður albanska aðskilnaðarsinna í Kosovo. Átökunum lauk þegar serbneskar hersveitir héldu á brott eftir loftárásir NATO.