Virtist ekki vera alsgáður

Japanski fjármálaráðherrann Shoichi Nakagawa hefur tilkynnt að hann hyggist segja af sér embætti. Ákvörðunin kemur í kjölfar mikillar gagnrýni sem hann hefur sætt eftir blaðamannafund í Róm um síðustu helgi. Svo virtist sem ráðherrann væri ekki alsgáður á fundinum.

Nakagawa sagði að hann myndi láta af embætti þegar neðri deild japanska þingsins hefði samþykkt fjárlagafrumvarpið, að því er fram kom í vefútgáfu Berlingske Tidende í morgun. Fjármálaráðherrann er 55 ára og náinn samstarfsmaður forsætisráðherra Japans. Framkoma Nakagawa á blaðamannafundinum vakti athygli og umtal. Hann var þvoglumæltur og svo virtist um tíma sem hann væri að sofna þar sem hann laut höfði með lokuð augu.

„Ég var ekki drukkinn en hafði tekið meðal við kvefi,“ sagði Nakagawa sér til afsökunar. Stjórnmálaskýrendur sögðu í gær að það yrði alvarlegt áfall fyrir japönsku ríkisstjórnina ef Nakagawa, sem axlar ábyrgð á fjármálakerfi og ríkisfjármálum Japans, neyddist til að segja af sér.

Shoichi Nakagawa hyggst segja af sér ráðherraembættinu.
Shoichi Nakagawa hyggst segja af sér ráðherraembættinu. Reuters
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert