Sprengjur sem gufuðu upp

Margar sprengjur, sem Ísraelar vörpuðu úr flugvélum í átökunum á …
Margar sprengjur, sem Ísraelar vörpuðu úr flugvélum í átökunum á Gaza, sprungu ekki. Reuters

Fjölmargar sprengjur, sem voru notaðar í átökum Ísraela og Hamas-liða á Gaza í lok desember og í janúar, sprungu ekki þrátt fyrir að þeim hafi verið beitt. Fréttavefur breska ríkisútvarpsins segir að þessar sprengjur séu nú horfnar.

Sprengjusérfræðingar á vegum Sameinuðu þjóðanna áttu að hreinsa svæðið, en ljóst er að einhver var á undan þeim. 

Um er að ræða flugvélasprengjur og fosfórsprengjur, sem Ísraelsher notaði í átökunum á Gaza.

Embættismenn á vegum SÞ reyna nú að komast að því hvar vopnin séu niðurkomin. Þá hafa þeir kallað eftir því að þeim verði skilað.

Ísraelar saka Hama-samtökin um að hafa tekið sprengjurnar.

Sprengjusérsveit á vegum SÞ hefur verið á Gaza frá því átökunum lauk í síðasta mánuði. Verkefni sveitarinnar er að finna ósprungnar sprengjur og fjarlægja þær með öruggum hætti.

Fyrir hálfum mánuði, þann 2. febrúar, fékk sveitin aðgang að geymslusvæði í Gaza-borg þar sem yfir sjö tonn af sprengiefni var geymt.

Þar voru m.a. geymdar þrjár stórar sprengjur, en hver þeirra vegur um eitt tonn . Þar voru einnig minni sprengjur, eða átta talsins, sem vega yfir 200 kg. Þeim hafði öllum verið sleppt úr flugvél, en þær sprungu hins vegar ekki.  

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert