Hillary Clinton, utanríkisráðherra Bandaríkjanna, sagði í Japan í dag að Bandaríkin hafi heitið því að koma í veg fyrir kjarnorkuvopnavæðingu Norður-Kóreu. Hún varaði stjórnina í Pyongyang við frekari eldflaugaskotum.
Hillary Clinton er nú í sinni fyrstu opinberu heimsókn til Asíu og heimsótti fyrst Japan. Hún endurnýjaði boð Bandaríkjanna um eðlileg samskipti og friðarsamning við Norður-Kóreu. Boðið er háð því skilyrði að Norður-Kórea hættir sannanlega við áætlun sína um smíði kjarnorkuvopna.