Fréttaskýring: Böðullinn á „Blóðvöllum“ fyrir rétt

"Félagi Duch" böðull Rauðu kmeranna, fyrir rétti í gær. Hann á yfir höfði sér lífstíðarfangelsi fyrir glæpi gegn mannkyninu. AP

Réttarhöld hófust í gær yfir einum af helstu böðlum Rauðu kmeranna í Kambódíu, Kaing Guek Eav, sem sakaður er um að hafa stjórnað pyntingum í illræmdu fangelsi í Phnom Penh og morðum á 15.000 föngum, þeirra á meðal tugum barna.

Þetta eru fyrstu réttarhöld dómstóls sem stofnaður var með stuðningi Sameinuðu þjóðanna til að sækja til saka fyrrverandi forystumenn Rauðu kmeranna sem urðu um 1,7 milljónum manna að bana á árunum 1975-79, eða um fjórðungi þjóðarinnar.

Kaing Guek Eav kenndi stærðfræði í framhaldsskóla áður en hann gekk til liðs við Rauðu kmerana. Hann gekk undir byltingarnafninu „Félagi Duch“ og varð yfirmaður Tuol Sleng, illræmds fangelsis í miðborg Phnom Penh.

Duch hefur alltaf viðurkennt grimmdarverkin sem framin voru í fangelsinu þegar Rauðu kmerarnir hrintu í framkvæmd áætlunum sínum að skapa nýtt fyrirmyndarríki. Milljónir manna voru hraktar út úr borgum og sendar til vinnu í samyrkjubúum, gjaldmiðill landsins var lagður niður, skólum lokað og trúarbrögð voru bönnuð. Hundruð þúsunda manna sultu í hel, aðrir dóu af völdum þrældóms og sjúkdóma eða voru teknir af lífi.

Grimmdarverkin í Tuol Sleng-fangelsinu voru liður í þeirri stefnu Rauðu kmeranna að eyða öllum „óvinum“ byltingarinnar. Á meðal þeirra sem hnepptir voru í fangelsið voru fyrrverandi embættismenn, millistéttarfólk, menntamenn og fjölskyldur þeirra og seinna liðsmenn Rauðu kmeranna sem grunaðir voru um svik við byltinguna. Sumir voru jafnvel fangelsaðir fyrir það eitt að nota gleraugu.

Fangarnir voru pyntaðir til að játa að þeir væru á mála hjá CIA, KGB eða víetnamska kommúnistaflokknum. Fólkið var síðan flutt til Choeung Ek, nokkra kílómetra frá höfuðborginni, eins af stöðunum sem síðar fengu nafnið „Blóðvellir“. Þar voru fangarnir barðir til bana, stundum eftir að þeir höfðu grafið eigin gröf.

Áætlað er að um 15.000 manns hafi setið í fangelsinu. Aðeins 14 fullorðnir fangar og fimm börn fundust á lífi.

Iðrast drápanna

Eftir að stjórn Rauðu kmeranna var steypt af stóli 1979 tók Duch þátt í baráttu kommúnistahreyfingarinnar gegn stjórnarhernum við landamærin að Taílandi. Skömmu eftir að eiginkona hans var myrt árið 1995 snerist Duch til kristni og starfaði fyrir hjálparstofnanir við landamærin.

Lengi var talið að Duch væri látinn, eða þar til ljósmyndarinn Nic Dunlop fann hann í þorpi í norðvesturhluta Kambódíu árið 1999. „Ég iðrast mjög drápanna og fortíðarinnar – ég vildi vera góður kommúnisti; ég hafði enga ánægju af starfi mínu,“ sagði hann við Dunlop.

Duch sagði í viðtali fyrir tveimur árum að hann hefði aðeins framfylgt fyrirmælum frá leiðtogum Rauðu kmeranna. „Þeir héldu fjölskyldu minni í gíslingu og hún hefði orðið fyrir sömu örlögum og hinir fangarnir í Tuol Sleng ef ég hefði reynt að flýja. Það hefði ekki hjálpað neinum ef ég hefði flúið eða gert uppreisn.“

Hungur í réttlæti

Réttarhöldin yfir forystumönnum Rauðu kmeranna marka tímamót í sögu Kambódíu og margir landsmenn höfðu misst vonina um að kommúnistaleiðtogarnir, sem eyðilögðu líf þeirra, yrðu nokkurn tíma sóttir til saka. „Ég hélt aldrei að þessi dagur myndi koma,“ hafði breska dagblaðið The Times eftir Vann Nath, einum af fáum föngum sem lifðu af grimmdarverkin í Tuol Sleng-fangelsinu.

„Það er hungur eftir réttlæti í landinu. Margir Kambódíumenn skilja ekki enn hvers vegna þeir voru ofsóttir,“ sagði Robert Petit, saksóknari dómstóls sem stofnaður var til að rétta yfir leiðtogum Rauðu kmeranna.

Auk „félaga Duch“, sem kom fyrir rétt í gær, verða fjórir af nánustu bandamönnum Pols Pots sóttir til saka fyrir glæpi gegn mannkyninu. Pol Pot lést árið 1998.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka