Forstjóri Ítalíu fagnar sigri

Silvio Berlusconi, forsætisráðherra Ítalíu.
Silvio Berlusconi, forsætisráðherra Ítalíu. Reuters

Það er ekki hægt að segja að það sé tíðindalaust í ítölskum stjórnmálum.

Í síðustu viku stóð þjóðin á öndinni vegna þess að ung ítölsk stúlka sem legið hafði í dauðadái í 17 ár í kjölfar bílslyss átti loksins að fá lausn frá óumbeðinni gíslingu heilbrigðiskerfisins, sem fólst í þvingaðri næringar- og lyfjagjöf í æð.

Faðir stúlkunnar hafði árum saman barist fyrir því að dauði dóttur hans mætti frá eðlilegan framgang, og náði loks rétti sínum með dómsúrskurði.

Vatíkanið og páfinn brugðust ókvæða við og töluðu um skipulagt morð á vegum ríkisins og faðirinn var í fjölmiðlum sakaður um að vilja drepa dóttur sína, þótt hann væri einungis að framfylgja yfirlýstum vilja hennar fyrir slysið.

Forsætisráðherrann, Silvio Berlusconi, notfærði sér þá miklu athygli sem fjölmiðlar höfðu vakið á málinu með síendurteknum birtingum á 17 ára gömlum myndum af brosandi og æskufríðu andliti stúlkunnar fyrir slysið.

Berlusconi tilkynnti að ríkisstjórnin ætlaði að gefa út tilskipun er ógilti dómsúrskurðinn, „til að bjarga lífi“ stúlkunnar.

Giorgio Napolitano forseti skrifaði ríkisstjórninni þá bréf og sagðist ekki geta undirritað slíka tilskipun, sem stangaðist á við stjórnarskrána, þar sem sjálfstæði dómsvaldsins er lögfest. Þar með var skollin á stjórnlagadeila sem átti sér fá fordæmi.

Berlusconi, sem löngum hefur eldað grátt silfur við dómsvaldið í landinu, brást ókvæða við og lýsti því yfir að stjórnarskráin, sem hann sór embættiseið sinn við á sínum tíma, væri ómerkt plagg, samið af mönnum sem voru mótaðir af sovéskum hugsunarhætti. (Stjórnarskrá Ítalíu var samin af fulltrúum andspyrnuhreyfingarinnar gegn fasismanum í kjölfar síðari heimsstyrjaldar.)

Síðan ákvað Berlusconi að ögra forsetanum, stjórnarskránni og dómsvaldinu með því að leggja lagafrumvarp fyrir báðar deildir þingsins til flýtimeðferðar "til að bjarga lífi stúlkunnar. Þetta var kapphlaup við tímann, því læknar höfðu hafið hægfara stöðvun á næringu í æð stúlkunnar.

Þegar máliðstóð sem hæst og umræður um frumvarpið stóðu yfir í þinginu fyrir réttri viku síðan bárust þau tíðindi að stúlkan hefði látist. Þingmenn stjórnarinnar létu öllum illum látum á þinginu og sökuðu stjórnarandstöðuna og dómsvaldið um að hafa tekið stúlkuna af lífi.

„Komu í veg fyrir að ég gæti bjargað lífi hennar“

„Þeir komu í veg fyrir að ég gæti bjargað lífi hennar,“ sagði Berlusconi, sem á þessum tíma var á þönum um eyjuna Sardiníu, þar sem kosningarbarátta um forsetaembætti Sardiníu var í hámarki.

Það verður að segjast eins og er að mál þetta afhjúpaði veikleika demókrataflokksins, sem er stærsta stjórnarandstöðuaflið.

Innan raða hans eru kaþólikkar sem lúta vilja páfans í einu og öllu og lýstu stuðningi við Berlusconi, þannig að flokkurinn talaði ekki einni röddu í þessu máli, sem varðaði ekki bara rétt þessarar stúlku og föður hennar, heldur sjálfa stjórnarskrána og vald forsetans sem vörður um þrískiptingar valdsins. Mál þetta var túlkað af páfanum og Berlusconi sem barátta á milli þeirra sem voru með eða á móti „lífinu“, án þess að merking þess hugtaks væri skýrð nánar.

Stjórnarandstaðan afhjúpaði veikleika sinn með því að megna ekki að taka einarða afstöðu í þessu máli og standa ótvíræðan vörð um stjórnarskrána. Þessi veikleiki kom svo endanlega upp á yfirborðið í gærmorgun (þriðjudag) þegar úrslit kosninganna á Sardiníu voru birt.

Sigraði fráfarandi forseta Sardiníu

Fulltrúi Berlusconi sigraði fráfarandi forseta Sardiníu og frambjóðanda demókrata með yfirburðum, tæplega 52% gegn um 43% atkvæðum demókrata. Berlusconi hafði lagt allt í sölurnar fyrir þessar kosningar og sýndi sig ósigrandi.

Í kjölfarið kom það eins og þruma úr heiðskýru lofti að Walter Veltroni, leiðtogi Demókrataflokksins, sagði af sér.

„Það er komið nóg af árásum og sárindum,“ sagði hann og sýndi enn einu sinni það viðmót og ímynd „góða mannsins“ sem hann hefur reynt að halda á lofti frá því hann var kjörinn fyrsti leiðtogi þessa nýstofnaða sameiningarflokks sósíalista og vinstri-kaþólikka.

Góðmennskuna hefur hann meðal annars sýnt með því að draga fjöður yfir og þegja um þau augljósu hagsmunatengsl og hagsmunaárekstra sem gera stöðu Silvio Berlusconi fullkomlega óeðlilega sem forsætisráðherra og eiganda meirihluta fjölmiðla í landinu.

Hafa látið undan fjölmiðlaþrýstingnum

Veltroni og flokkforystan hafa látið undan fjölmiðlaþrýstingnum og látið sem Berlusconi sé eðlilegur andstæðingur í lýðræðisþjóðfélagi, þótt starfsaðferðir hans og ferill allur verði ekki túlkaður öðruvísi en sem ógnun við lýðræðið.

Það birtist ekki bara í tilhneigingum hans til að stjórna með tilskipunum og reglugerðum og sniðganga þannig þinglega stjórnarhætti, heldur líka í áratuga löngu stríði hans við dómsvaldið og dómarastéttina í landinu.

Þær deilur náðu hámarki með samþykki svonefndra „Alfano-laga“ síðastliðið sumar, en þau eru kennd eru við dómsmálaráðherrann og færa forsætisráðherranum, forseta lýðveldisins og forsetum beggja deilda þingsins fullkomna vernd gegn sérhverri lögsókn.

Þessir fjórir æðstu embættismenn ríkisins eru þannig hafnir yfir lögin, þótt stjórnarskráin kveði á m að allir eigi að vera jafnir fyrir lögunum. Giorgio Napolitano forseti var gagnrýndur fyrir að skrifa undir þessa lagasetningu þingsins, en ekki af Veltroni og flokksmönnum hans.

Nokkur orð um Mills-málið

Mikilvægi þeirrar gjörðar er nú orðið opinbert, því sama daginn og fyrsta frétt fjölmiðla er afsögn formanns Demókrataflokksins, sem skilur flokk sinn eftir í rúst, er það önnur frétt fjölmiðla að dómur hafi fallið í gær í „Mills-málinu“ svokallaða.

David Mills, virtur breskur lögfræðingur, var í gær dæmdur í undirrétti í Milano í fjögurra og hálfs árs fangelsi og 5 ára bann við að gegna opinberum störfum og 250.000 evra sekt fyrir að hafa þegið samtals 600.000 evrur í mútugreiðslur fram til ársins 2000 fyrir að bera ljúgvitni fyrir ítölskum dómstóli.

Ljúgvitnið bar hann í réttarhöldum sem fjölluðu um viðskipti fjölmiðlafyrirtækis Berlusconi með sjónvarpsréttindi. Greiðandi þessa mútufjár var að sögn Mills Silvio Berlusconi, forsætisráðherra Ítalíu.

Hefðu „Alfano-lögin“ ekki verið samþykkt síðastliðið sumar hefði dómsúrskurðurinn í gær ekki bara náð til David Mills, þiggjanda mútufjárins, heldur einnig til greiðanda þeirra, forsætisráðherra Ítalíu.

Yfirgnæfa efnahagsvandann

Öll þessi tíðindi, sem skella nú á ítölsku þjóðinni, yfirgnæfa þann gríðarlega efnahagsvanda sem hins vegar blasir við öllum almenningi, þar sem fréttir af uppsögnum, minnkandi kaupmætti og samdrætti í efnahagslífi hverfa í skuggann af skollaleik stjórnmálamannanna.

En ítalska ríkisstjórnin kom með sterkan mótleik gegn kreppunni fyrir fáum vikum síðan þegar öllum þeim sem eyðilögðu bíla sína og keyptu ítalska í staðinn var lofað 1.000 evrum úr ríkiskassanum, og ef menn gerast svo rausnarlegir að fleygja þvottavélinni sinni líka til að kaupa nýja ítalska verður þessi ríkisstyrkur ennþá rausnarlegri.

Þetta er töfralausn neyslusamfélagsins á efnahagskreppunni: með því að stækka öskuhaugana mun hagvöxturinn taka við sér og sólin fara að skína á ný.

Höfundur er listfræðingur og leiðsögumaður á Ítalíu

Giorgio Napolitano Ítalíuforseti.
Giorgio Napolitano Ítalíuforseti.
Walter Valtroni vék sæti sem leiðtogi vinstri manna í ítölsku …
Walter Valtroni vék sæti sem leiðtogi vinstri manna í ítölsku stjórnarandstöðunni á þriðjudag.
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert