Öryggisráð Ísraelsstjórnar hefur ákveðið að ekki verði samið um vopnahlé fyrr en palestínskir uppreisnarmenn sleppa ísraelskum hermanni, sem var tekinn höndum árið 2006. Þetta segir Meir Sheetrit, innanríkisráðherra landsins.
Sheetrit greindi blaðamönnum frá því að ríkisstjórnin styðji þær kröfur að Gilad Shalit verði sleppt úr haldi. Ef það gerist muni Ísraelsher hörfa frá Gaza.
Ísraelar hafa lokað öllum landamærum að Gaza. Þeir hleypa aðeins helstu nauðsynjum yfir landamærin.
Leiðtogar Hamas-samtakanna segja að það sé ekki hægt að tengja þetta tvennt saman, þ.e. lokun landamæranna og lausn hermannsins.
„Öryggisráðið samþykkti einróma að það sé skilyrði að Shalit verði sleppt eigi samningar að nást við Hamas,“ sagði Sheetrit við blaðamenn að loknum fundi öryggisráðsins.
Shalit var handsamaður í júní 2006 þegar hann var við eftirlitsstörf við jaðar Gaza.