Fjármálayfirvöld í Bandaríkjunum segjast ekki vita hvar bandaríski auðkýfingurinn Allen Stanford er niðurkominn, en fjármálaeftirlitið hefur ákært hann fyrir að hafa svikið út um átta milljarða dala.
Stanford, sem er frá Texas, hefur ekkert sést frá því á þriðjudag þegar ákæran var birt.
Bandaríska fjármálaeftirlitið segir að aðeins Stanford og náinn samstarfsmaður hans viti hvar allt féð sé að finna.
Innistæðueigendur, sem eiga fé í bönkum sem tengjast auðkýfingnum, hafa fjölmennt fyrir utan bankana til að taka út sitt sparifé.