46 aftökur í Íran á árinu

Frá samkomu í Teheran.
Frá samkomu í Teheran. Reuters

Alls hafa 46 verið líflátnir í Íran á árinu eftir að hafa verið dæmdir fyrir glæpi af ýmsum toga. Þar af var fimmtugur tónlistarkennari hengdur fyrir að hafa tekið saman við 17 ára stúlku, en áður hafði dómari komist að þeirri niðurstöðu að grýta bæri manninn til dauða.

Þetta kemur fram í íranska dagblaðinu Etemad Melli en þar segir að aftakan hafi farið fram í bænum Sari í norðurhluta landsins.

Fór aftakan fram þrátt fyrir að fjölskylda mannsins, sem hét Abdullah Fareivar, hefði bent á að hann hefði tekið saman við stúlkuna í samráði við fjölskyldu hennar og að eiginkona hans hafi verið þess meðvituð.

Samkvæmt íslömskum lögum eins og þau eru túlkuð í Íran er það réttmæt refsing að grýta fólk til bana fyrir ólögleg ástarsambönd.

Fer refsingin þannig fram að karlar eru grafnir upp að mitti en konur að öxlum.

Nái hinn dæmdi að losa sig og sleppa lifandi úr grjótkastinu hefur hann áunnið sér frelsi.

Fjórir Íranar hafa verið líflátnir á þennan hátt á síðustu fjórum árum, þar af einn í desember, þrátt fyrir bann Ayatollah Mahmoud Hashemi Shahrudi, æðsta yfirmanns dómsmála í landinu, árið 2002 við slíkum refsingum. 

Sex Íranar, fimm karlar og kona, bíða nú slíkrar aftöku í fangelsi.

Samkvæmt gögnum AFP-fréttastofunnar voru 248 manns líflátnir í Íran í fyrra.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert