Knut Storberget, dómsmálaráðherra Noregs, sneri í gær við þeirri ákvörðun sinni, að múslímskar konur í norsku lögreglunni mættu bera „hijab“ eða höfuðklút, sem hylur hár og háls. Hafði ákvörðun hans verið harðlega mótmælt og þá ekki síst í hans eigin flokki, Verkamannaflokknum.
„Þjóðin var á móti, flokkurinn var á móti og margir þingmenn Verkamannaflokksins voru andvígir þessari ákvörðun,“ sagði Trond Henry Blattmann, leiðtogi Verkamannaflokksins á Vestur-Ögðum.
Norskir fjölmiðlar segja, að mikil óánægja sé með Storberget hjá óbreyttum flokkssystkinum hans, sem saka hann um sambandsleysi. Á blaðamannafundi í gær kynnti hann nýja ákvörðun sína.