Obama byrjar vel

Þrátt fyrir ýmsar hindranir er Barack Obama talinn hafa byrjað vel og af krafti í embætti forseta Bandaríkjanna. Í fyrsta mánuði sínum í starfi undirritaði Obama 800 milljarða dollara aðgerðapakka til að örva efnahagslíf landsins en vandræði urðu við skipan í embætti ríkisstjórnarinnar.

Obama varð að hefjast handa þegar í stað en hann tók við efnhag landsins í samdrætti. Þá voru atvinnuleysistölur í 7.6% sem er með því hæsta í áratugi en með 800 milljarða aðgerðapakka sínum vonast Obama til að skapa 3,5 milljónir nýrra starfa á komandi tveimur árum.

Vandræðagangur var við skipan í embætti ríkisstjórnarinnar. Bill Richardson dró sig til baka úr embætti viðskiptaráðherra vegna spillingarmáls á hendur honum sem nú er í rannsókn. Tom Daschle dró sig til baka úr embætti heilbrigðisráðherra vegna óreiðu í skattamálum. Og repúblikaninn Judd Gregg dró sig einnig til baka úr embætti viðskiptaráðherra vegna hugmyndafræðilegs ágreinings við forsetann.

Þrátt fyrir þessar hindranir á vegi Obama segja fréttaskýrendur að forsetinn hafi farið vel af stað. Það að koma aðgerðapakkanum í gegnum þingið innan við 700 klukkustundum eftir að hann tók embætti, gæti þó í raun hafa verið auðveldi hluti starfsins. Sérstaklega ef tillit sé tekið til atvinnuleysisins sem er talið munu aukast á komandi mánuðum. Þá er því einnig spáð að efnahagur landsins muni taka áframahaldandi dýfu, áður en hann fari að batna á ný.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert