Shoichi Nakagawa, fyrrverandi fjármálaráðherra Japans, rakst í neyðarbjöllu og snerti á listaverkum sem má ekki koma við þegar honum voru sýndir dýrgripir Vatíkansins á dögunum.
Upplýsingarnar renna stoðum undir að Nakagawa hafi komið fram ölvaður á blaðamannafundi í Róm, en hann sagði sem kunnugt er af sér í kjölfarið.
Nakagawa var boðið að skoða listasafnið eftir lokun þess í fylgd um tíu manna, þar af hátt settra embættismanna og Kagefumi Ueno, sendiherra Japans í Vatíkaninu.
„Hann hagaði sér ekki eins og hans hátign Japanskeisari hefði gert,“ sagði Ueno um ráðherrann í samtali við dagblaðið Mainichi Shimbun.
„Hann virtist svo áhugasamur um klassíska list að hann vildi snerta á henni,“ sagði sendiherann.