Hillary boðar aukna samvinnu við Kínverja

Hillary Clinton og Hu Jintao í Peking í dag.
Hillary Clinton og Hu Jintao í Peking í dag. Reuters

Hillary Clinton, utanríkisráðherra Bandaríkjanna, boðaði aukna samvinnu Kínverja og Bandaríkjanna í opinberri heimsókn sinni til Kína í Peking í dag. Clinton telur samvinnuna afar mikilvæga.

Vék Clinton þar meðal annars að því að samstarf á sviði efnahagsmála og loftslagsmála væri afar brýnt en ríkin tvö losa meira en nokkur önnur af koldíoxíði út í andrúmsloftið.

Umræddir málaflokkar væru svo brýnir að þeir yfirskyggðu deilur vegna Tíbets og Taívans og stöðu mannréttindamála í Kína.

Clinton ræðir nú við Hu Jintao Kínaforseta og Wen Jiabao forsætisráðherra um leiðir til að efla samvinnu ríkjanna.

Þakkaði hún Kínastjórn það traust sem hún hefði sýnt gagnvart bandarískum skuldabréfum í fjármálafárviðrinu, yfirlýsing sem telst góður mælikvarði á mikilvægi Kína fyrir bandaríska efnahagskerfið.

Stjórnvöld ríkjanna hafa þegar hafið undirbúning framlags þeirra á fundi leiðtoga G 20-ríkjanna í Lundúnum í aprílbyrjun, auk þess sem Hu forseti mun í næsta mánuði eiga fund með Barack Obama forseta í Hvíta húsinu.

Meðal áhyggjuefna Kínverja er klásúla í viðreisnaráætlun stjórnar Obamas fyrir efnahagslífið sem kveður á um að keyptar skuli bandarískar vörur.

Er skýringin sú að Bandaríkin eru einn allra mikilvægasti útflutningsmarkaður landsins.

En Bandaríkjastjórn hyggst meðal annars fjármagna viðreisnaráætlunina með sölu skuldabréfa.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert