Hillary Clinton, utanríkisráðherra Bandaríkjanna, boðaði aukna samvinnu Kínverja og Bandaríkjanna í opinberri heimsókn sinni til Kína í Peking í dag. Clinton telur samvinnuna afar mikilvæga.
Vék Clinton þar meðal annars að því að samstarf á sviði efnahagsmála og loftslagsmála væri afar brýnt en ríkin tvö losa meira en nokkur önnur af koldíoxíði út í andrúmsloftið.
Umræddir málaflokkar væru svo brýnir að þeir yfirskyggðu deilur vegna Tíbets og Taívans og stöðu mannréttindamála í Kína.
Clinton ræðir nú við Hu Jintao Kínaforseta og Wen Jiabao forsætisráðherra um leiðir til að efla samvinnu ríkjanna.
Þakkaði hún Kínastjórn það traust sem hún hefði sýnt gagnvart bandarískum skuldabréfum í fjármálafárviðrinu, yfirlýsing sem telst góður mælikvarði á mikilvægi Kína fyrir bandaríska efnahagskerfið.
Stjórnvöld ríkjanna hafa þegar hafið undirbúning framlags þeirra á fundi leiðtoga G 20-ríkjanna í Lundúnum í aprílbyrjun, auk þess sem Hu forseti mun í næsta mánuði eiga fund með Barack Obama forseta í Hvíta húsinu.
Meðal áhyggjuefna Kínverja er klásúla í viðreisnaráætlun stjórnar Obamas fyrir efnahagslífið sem kveður á um að keyptar skuli bandarískar vörur.
Er skýringin sú að Bandaríkin eru einn allra mikilvægasti útflutningsmarkaður landsins.
En Bandaríkjastjórn hyggst meðal annars fjármagna viðreisnaráætlunina með sölu skuldabréfa.