Vinna á hnetuofnæmi

00:00
00:00

Þeir sem þjást af hnetu­of­næmi sjá nú fram á bjart­ari tíma. Lækn­ar við Cambridge Add­en­brooke sjúkra­húsið í Bretlandi hafa þróað aðferð til að draga úr of­næm­isáhrif­um hnet­anna. Þetta er í fyrsta sinn sem tekst að milda áhrif fæðuof­næm­is með svo af­ger­andi hætti.

Lækn­ar við Cambridge Add­en­brooke sjúkra­húsið gerðu til­raun­ir með fjög­ur börn sem öll þjást af al­var­legu hnetu­of­næmi. Börn­in voru lát­in taka inn hnetu­duft í smá­um skömmt­um sem síðan voru aukn­ir. Fyrst um sinn tóku börn­in inn 5 milli­grömm af duft­inu á dag en eft­ir sex mánuði voru skammt­arn­ir komn­ir í 800 milli­grömm á dag en það jafn­gild­ir fimm hnet­um. Þol barn­anna gegn efn­um í hnet­un­um jókst því jafnt og þétt.

Hnetu­of­næmi hrjá­ir  eitt af hverj­um 50 börn­um í Bretlandi. Of­næmið veld­ur önd­un­ar­erfiðleik­um en í verstu til­vik­um fer sjúk­ling­ur í lost og get­ur verið í lífs­hættu. Jafn­vel minnsta snert­ing við hnet­ur eða afurðir unn­ar úr hnet­um get­ur kallað fram of­næmisviðbrögð.

Kate Frost, móðir níu ára drengs sem tók þátt í til­raun­inni, seg­ir ekki hægt að lýsa breyt­ing­unni.

„Hnetu­of­næmi drengs­ins hef­ur haft áhrif á líf allr­ar fjöl­skyld­unn­ar. Við höf­um ekki getað farið á veit­ingastaði. Ef hann hef­ur farið í af­mæl­is­veisl­ur hef ég þurft að senda hann með nesti,“ seg­ir Frost. 

Svipuðum aðferðum hef­ur verið beitt í bar­áttu við of­næmi gegn bý­flugna- og vespu­bit­um en aldrei fyrr hafa lækn­ar náð slík­um ár­angri í bar­áttu við fæðuof­næmi. Fyrri tæp­um tveim­ur ára­tug­um voru gerðar til­raun­ir með að sprauta of­næm­is­vald­in­um í smá­skömmt­um í sjúk­linga en ár­ang­ur­inn af því varð eng­inn.

Dr. Andy Clark, sem stýrði rann­sókn­inni, seg­ir að þeir sem þjást af hnetu­of­næmi, lifi í stöðugum ótta um líf sitt.

„Mark­mið okk­ar var að þróa meðferð sem gerði sjúk­ling­un­um kleift að borða það sem þá lysti, án þess að ótt­ast um líf sitt. Við vild­um bæta lífs­gæði sjúk­ling­anna,“ seg­ir Dr. Clark.

Hann seg­ir að ekki sé um eig­in­lega lækn­ingu að ræða held­ur megi með þessu móti halda sjúk­dómn­um niðri en þá verði sjúk­ling­arn­ir að taka skammt­inn af hnetu­duft­inu dag­lega til að viðhalda þol­inu.

Lækn­arn­ir segja að frek­ari rann­sókna sé þörf. Ætl­un­in er að gera til­raun­ir á nýj­um hópi barna og í fram­haldi af því full­orðnum.

mbl.is

Bloggað um frétt­ina

Fleira áhugavert

Erlent »

Fleira áhugavert