Fréttaskýring: Hriktir í stoðum japanska kerfisins

Shoichi Nakagawa, fyrrverandi fjármálaráðherra Japans, leitar ráða hjá Taro Aso …
Shoichi Nakagawa, fyrrverandi fjármálaráðherra Japans, leitar ráða hjá Taro Aso í japanska þinginu. Líklegt er að Aso fari senn frá. AP

Er mikilla breytinga að vænta í japönskum stjórnmálum? Riðar valdakerfi Frjálslynda lýðræðisflokksins til falls eftir nær sleitulausa valdasetu frá stofnárinu, 1955? Slíkar spurningar gerast æ háværari enda staða flokksins slæm.

Það var því til að bæta gráu ofan á svart þegar fjármálaráðherrann Shoichi Nakagawa sagði af sér fyrir helgi eftir rökstuddar ásakanir um að hann hefði komið fram drukkinn, atvik sem varð ekki til að auka stuðning við stjórn Taro Aso forsætisráðherra sem mældist 13,4 prósent á fimmtudag. Allt bendir til að flokkurinn gjaldi afhroð í kosningunum í haust.

Þessi umskipti kalla á forsögu.

Kristín Ingvarsdóttir, dr. í félagsvísindum frá Hitotsubashi-háskóla í Tókýó, bendir aðspurð á að eftir lok síðari heimsstyrjaldar hafi pólitískt landslag í Japan verið gjörólíkt því sem nú er að því leyti að fjöldinn allur af framboðum einstaklinga og flokka hafi sprottið upp. Við stofnun sósíalistaflokks hafi hægriframboðin sameinast undir merkjum Frjálslynda lýðræðisflokksins, sem hafi allar götur síðan verið stærsti flokkurinn, samsettur úr mörgum flokksbrotum.

Miðjan í hagsmunaneti

Þessi staða hafi breyst.

„Það sem hefur síðan hrikt í stoðum flokksins eru eftirmálar þess að japanska efnahagsbólan sprakk í byrjun tíunda áratugarins. Margir hafa bent á þá einföldu „lógík“ að ef það var fyrst og fremst efnahagsundrið sem hélt flokknum svo lengi við lýði sé eðlilegt að staða hans hafi veikst eftir að tímabil efnahagsörðugleika og stöðnunar tók við.“

Efnahagslægðin varaði enn þegar Koizumi settist í stól forsætisráðherra árið 2001 með loforð um umbætur í efnahagskerfinu.

Kristín segir skiptar skoðanir um hversu miklum árangri Koizumi hafi náð í þessum efnum. Tíminn leiði í ljós þann dóm sögunnar sem einkavæðingarferli hans fái.

Ólíkt eftirmönnum sínum, Shinzo Abe og Yasuo Fukuda, hafi Koizumi ekki hrökklast úr embætti heldur hafi hann lýst því yfir að hann myndi ekki sitja allt tímabilið. Ýmislegt bendir nú til að Taro Aso forsætisráðherra fari sömu leið og Abe og Fukuda.

Lítilla breytinga að vænta

Kristín væntir því ekki róttækra breytinga fari eins og nú horfir, að Demókrataflokkurinn standi uppi sem sigurvegari í haust. Jafnframt beri að hafa í huga að oftar en ekki hafi sterk staða flokksins í könnunum ekki skilað sér í kjörklefanum.

Keimlíkir flokkar

Borið hefur á þeirri skoðun að ástandið í japönsku þjóðlífi sé svo alvarlegt og staða Frjálslynda lýðræðisflokksins svo veik að allt stefni í stjórnarskipti, eða jafnvel nýtt flokkakerfi.

Kristín bendir á þá gagnrýni að með uppgangi Demókrataflokksins sé í raun ekki að myndast tveggja flokka kerfi, til þess þyki stærstu flokkarnir tveir of líkir.

Margir telji að stjórnarskipti myndu varla hafa í för með sér róttækar breytingar.

Innt eftir því hvort almennt megi segja um japanska kjósendur að þeir séu íhaldssamir segir Kristín að margir Japanar hafi verið róttækir í kjölfar síðari heimsstyrjaldarinnar en hafi síðan unað við valdhafana í þeim stöðugleika sem ríkti.

Námsmenn hafi til að mynda verið mjög róttækir á sjöunda áratugnum en ekki látið mikið að sér kveða á vettvangi stjórnmálanna síðan.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert