Sjóræningjar í Adenflóa hafa rænt grísku flutningaskipi. Á fréttavef BBC kemur fram að fréttamaður þeirra sem er um borð í bresku herskipi í grenndinni, hafi sagt að skipstjóri gríska skipsins, MV Sladanha, hafi sent boð um það í gegn um talstöð að sjóræningjar hefðu farið um borð hjá honum.
Hafa sjóræningjarnir skipað skipstjóranum að vara breska herskipið við því að skipta sér af málinu. Breska herskipið, HMS Northumberland, er hluti flota Evrópusambandsins sem fylgist með ferðum sjóræningja um farvötn undan Afríkuströndum. HMS Northumberland var um 100 kílómetra frá flutningaskipinu þegar sjóræningjar náðu því á sitt vald.
Sómalskir sjóræningjar hafa stundað það að ráðast á vöruskip sem sigla um Adenflóa sem tengir Evrópu og Asíu. Alþjóðlega siglingastofnunin hefur gefið út viðvörun um að hætta hafi aukist á ný á ránum sjóræningja undan ströndum Sómalíu, eftir að slíkum árásum fækkaði í lok síðasta árs.
Greindi stofnunin frá því að í síðustu viku hafi verið ráðist á sex skip en öllum tókst þeim þó að flýja. Telur hún að ástæða aukinna rána nú sé að veður hafi batnað á þessum slóðum. Þá sé það meira freistandi nú fyrir sjóræningja að ræna fleirum skipum í von um lausnargjald, eftir að þeir létu nýlega laus á ný nokkur skip sem þeir höfðu áður rænt.