Fjöldi borga er í fjárhagserfiðleikum og eru leiðirnar, sem notaðar eru til að reyna að vinna sig úr kreppunni, margar og mismunandi. Nýlega sömdu Feneyjar um að setja upp Coca-Cola sjálfsala vítt og breitt um borgina í skiptum fyrir rúmar 300 milljónir króna.
Samningurinn gildir til fimm ára. Ekki eru allir ánægðir með ráðahaginn og í frétt dagblaðsins La Stampa segir að gosdrykkjarisinn muni nú hefja innrás sína í borgina. Fréttin ber heitið „Feneyjar til sölu.“
Að sögn La Stampa verða sjálfsalar sem selja drykki og snakk á hverju götuhörni í miðborginni, jafnvel á hinu þekkta Markúsartorgi.
Því hafnar embættismaður. „Sjálfsalarnir verða ekki með Coca-Cola vörumerkinu og verða ekki á stöðum sem flokkast undir helstu „dýrgripi“ Feneyja, líkt og Markúsartorginu og Rialto brúnni.“
Í Feneyjum gilda strangar reglur um sölu matar og drykkja til ferðamanna. T.d. eru reglur frá 1987 sem banna neyslu matar og drykkjar á Markúsartorginu. Þar að auki liggur há fjársekt við að gefa dúfum í miðborginni mat.
Borgarstjóri Feneyja, Massimo Cacciari, hefur gefið út yfirlýsingu þar sem hann segist undrast þá miklu umræðu sem hefur spunnist í kringum fyrirhugað samstarf við eitt stærsta og þekktasta vörumerki í heimi. Um sé að ræða fjárhagsaðgerð sem sé nauðsynleg til að vernda listrænan arf borgarinnar. Óraunhæft sé að búast við styrkveitingum sem sjái um alla fjárfreku staði borgarinnar.
Í fyrra heimsóttu u.þ.b. 20 milljónir manna Feneyjar, sem eru 30% fleiri en árið áður.