Jarðir hvítra bænda í Simbabve teknar með valdi

Robert Mugabe, forseti SImbabve.
Robert Mugabe, forseti SImbabve. AP

Tugir landareigna, sem eru í eigu hvítra bænda í Simbabve, hafa verið teknar með valdi frá því ný samsteypustjórn tók við völdum í landinu. Þetta segir formaður stéttarfélags bænda í Simbabve.

Trevor Gifford segir að undanfarnar tvær vikur hafi 77 landareignir verið teknar frá bændunum. Hann segir að þingmenn, lögreglan, hermenn og fulltrúar frá seðlabanka landsins hafi tekið þátt í aðgerðunum.

Gifford segir að aðgerðirnar hafi beinst að hluta gegn bændum sem hafi farið í mál við stjórnvöld. Dómstóll úrskurðaði í nóvember að upptaka stjórnvalda á landareignum hvítra bænda, sem landlausir þeldökkir íbúar fengu svo, hafi verið ólögleg.

Ríkisstjórn landsins sagði í kjölfarið að hún myndi ekki verða við dómsúrskurðinum, að því er fram kemur á fréttavef breska ríkisútvarpsins.

Um 400 býli, sem eru í eigu hvítra bænda, eru nú starfandi í Simbabve.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert