Kominn er tími til að Bandaríkjastjórn endurskoði stefnu sína gagnvart Kúbu, að mati hátt setts þingmanns úr röðum repúblikana.
Öldungadeildarþingmaðurinn Richard Lugar, sem fer fyrir repúblikönum í utanríkismálanefnd þingdeildarinnar, færir rök fyrir þessu í nýrri skýrslu, þar sem hann leggur til að Kúbverjar geti keypt bandarískar vörur í auknum mæli.
Slíkar breytingar myndu valda straumhvörfum í samskiptum ríkjanna sem hafa ekki átt í fullu diplómatísku sambandi frá árinu 1962.
Meðal þess sem horft er til er að bandarískir bændur gætu selt mun meira af mat til Kúbu.
Í staðinn fyrir viðskiptin fengju Kúbverjar aðgang að bandarískum vörum, en á undanförnum misserum hafa kínverskar vörur, svo sem örbylgjuofnar, slegið á vöruskortinn á Kúbu.
Hillary Clinton, utanríkisráðherra Bandaríkjanna, hefur boðað endurskoðun á stefnunni gagnvart Kúbu án þess að útskýra það í nánari smáatriðum.