Svo gæti farið að Svisslendingar greiði senn atkvæði um hvort hermenn í hlutastarfi megi hafa skotvopn á heimilum sínum.
Sósíaldemókratar og græningjar hafa þannig verið í forystu 74 hópa og samtaka sem hafa safnað 120.000 undirskriftum þess efnis að efnt verði til þjóðaratkvæðagreiðslu um hvort geyma beri vopnin á herstöðvum.
Svissneski herinn telur aðeins nokkur þúsund hermenn og er afgangurinn í hlutastarfi.
Herskylda er fyrir karla á aldrinum 19 til 31 árs.
Josef Lang, þingmaður græningja, segir 1,5 milljón vopn geymd inn á svissneskum heimilum, sem séu ógn við íbúa landsins.
Barbara Weil, sem starfar hjá svissnesku læknasamtökunum, segir tölfræðilega hafa verið sýnt fram á að sjálfsvígum myndi fækka ef aðgangur að byssum yrði takmarkaður.