Áhugasömum býðst nú til að eignast huliðsskipið Sea Shadow án endurgjalds. Skipið verður ella sent í brotajárn.
Skipið er þannig úr garði gert að það sést ekki á ratsjá.
Þá geta áhugasamir eignast herprammann Hughes Marine Barge, sem hannaður var í tengslum við verkefnið Project Jennifer til að lyfta sovéska kafbátnum K-129 af hafsbotni.
Kafbáturinn sökk árið 1968 og fórust allir í 98 manna áhöfn með.
Samsæriskenningar hafa verið uppi um tilraun áhafnar Hughes Marine Barge til að lyfta kafbátnum og vilja sumir meina að tekist hafi að ná honum öllum upp. Kafbátnum hafi síðan verið komið fyrir í herskipinu USNS Glomar Explorer.
Sá galli þykir vera á gjöfum Njarðar að viðhaldskostnaður verður alfarið á ábyrgð eigandans. Þykja fleyin, einkum Sea Shadow, tilvalin til að laða að ferðamenn.