Útflutningur Japana dróst saman um rúmlega 45% í janúar, borið saman við janúar 2008. Viðskiptahalli Japana nam tæplega 10 milljörðum dollara í janúar, sem er mesti viðskiptahalli frá því mælingar hófust árið 1979.
Samdrátturinn í bílaútflutningi frá Japan nam 69% í janúar og eftirspurn eftir rafeindatækjum snarminnkaði. Þá hefur innanlandsneysla dregist saman.
Útflutningur Japana til Bandaríkjanna dróst saman um nærri 53% í janúar, borið saman við janúar 2008. Samdráttur í í útflutningi til Evrópusambandslanda á sama tíma nam 47%.
Stjórnvöld í Japan segja að efnahagskreppan sé sú alvarlegasta frá því í síðari heimsstyrjöldinni. Japanska þingið hefur nú til umfjöllunar frumvörp ríkisstjórnarinnar sem fela í sér umfangsmiklar efnahagsaðgerðir. Í þeim felst meðal annars að afhenda hverjum japönskum skattgreiðanda jafnvirði 130 dollara en tilgangurinn er að auka neyslu.
Ríkisstjórn Taro Aso á hins vegar undir högg að sækja svo óvíst er hver afdrif efnahagsaðgerðanna verða í japanska þinginu.