Alríkislögreglan í Bandaríkjunum hefur handtekið alls 750 manns víðsvegar um landið í sérstöku átaki gegn mexíkóskum eiturlyfjahringjum. Nú síðast í gær voru 52 handteknir í Kaliforníu, Minnesota og Maryland.
Átakið hefur staðið yfir í tæp tvö ár og á þeim tíma hefur lögreglan gert upptæk 23 tonn af eiturlyfjum. Í nýlegri skýrslu var greint frá því að skipulögð glæpastarfsemi mexíkóskra eiturlyfjasmyglara væri ein stærsta ógnin við Bandaríkin. Megninu af kókaíninu í Bandaríkjunum er smyglað yfir landamærin frá Mexíkó og ráða mexíkóskir eiturlyfjasalar að mestu yfir fíkniefnamarkaðinum í Bandaríkjunum.
Í fyrrgreindri skýrslu segir einnig frá því að mexíkóskir eiturlyfjasalar eigi í vaxandi mæli í samstarfi við bandarísk glæpagengi. Stærstu mexíkósku eiturlyfjahringirnir eru fjórir talsins: Sinaloa-hringurinn, Gulf-hringurinn, Tijuana-hringurinn og Juarez-hringurinn. Bandaríska þingið hefur samþykkt að eyða hátt í 200 milljörðum króna til að berjast gegn fíkniefnasmygli og skipulagðri glæpastarfsemi frá Mexíkó.