Fyrrum leiðtogi Serba sýknaður af stríðsglæpaákæru

Milutinovic í réttarsalnum í Haag árið 2003.
Milutinovic í réttarsalnum í Haag árið 2003. Reuters

Stríðsglæpadómstóll Sameinuðu þjóðanna í Haag sýknaði í dag Milan Milutinovic, fyrrum forseta Serbíu, af ákæru fyrir stríðsglæpi og glæpi gegn mannkyninu í Kosovo. Dómstóllinn fann hins vegar fimm aðra fyrrum embættismenn Serba seka um stríðsglæpi og dæmdi þá í 15 til 22 ára fangelsi.

Milutinovic var á sínum tíma einn helsti samstarfsmaður Slobodans Milosevics, fyrrum forseta Júgóslavíu, sem lést í Haag árið 2006 meðan á réttarhöldum yfir honum stóð. Hann var árið 2003 ákærður fyrir að fyrirskipa herferð og ofsóknir gegn Kosovo-Albönum, sem höfðu komið fram með kröfur um sjálfstæði Kosovo, sem þá var hérað í Júgóslavíu.

Meðal þeirra, sem voru sakfelldir, eru Nikola Sainovic, fyrrum aðstoðarforsætisráðherra og yfirmaður hers Júgóslavíu, og Dragoljub Ojdanic, fyrrum varnarmálaráðherra. 

Þetta eru fyrstu dómarnir, sem dómstóllinn kveður upp í málum, sem tengjast hernaðaraðgerðum Serba í Kosovo undir lok tíunda áratugar síðustu aldar. Allir sakborningarnir neituðu sök.

Milutinovic er 66 ára. Hann var ákærður meðan hann gegndi enn embætti forseta Serbíu en þegar kjörtímabili hans lauk árið 2002 gaf hann sig fram við stríðsglæpadómstólinn og hefur verið þar í haldi síðan.

Þótt Milutinovic væri forseti Serbíu á meðan hernaðaraðgerðirnar í Kosovo stóðu yfir var öllum ljóst að Milosevic hélt um valdataumana.  

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert