Brenndu stórmarkaði í hatursáróðri gegn Bandaríkjunum

Þrír stórmarkaðir í Svíþjóð voru eyðilagðir og sá fjórði mikið skemmdur í íkveikjum í gær sem lögreglan telur að megi rekja til áróðurs gegn öllu bandarísku en í stórmörkuðunum voru seldar bandarískar vörur.

Talsmaður sænsku lögreglunnar segir að yfir 100 slökkviliðsmenn hafi verið kallaðir til að slökkva eldana í stórmörkuðunum í bænum Södertälje. Verið er að rannsaka hvort vinstrisinnaði hópurinn Global Intifada tengist málinu en hann bar ábyrgð á tveimur eldsvoðum í Södertälje í fyrra. Þá stóð hann á bak við íkveikjur í tveimur bifreiðum sem tilheyrðu danska og rússneska sendiráðinu árið 2005 auk þess sem hann reyndi að kveikja í skrifstofu pólska ræðismannsins árið 2004. Skotmörkin hafa yfirleitt verið lönd sem taka þátt í Íraksstríðinu.

Stórmarkaðirnir sem kveikt var í í gær tilheyrðu sænskum verslanakeðjum en seldu bandarískar vörur. Að sögn sænska ríkisútvarpsins dreifði Global Intifada nýlega bæklingum þar sem almenningur var hvattur til að kveikja í verslunum sem selja bandarískar vörur. Bandaríska sendiráðið í Stokkhólmi hefur verið í sambandi við lögregluna og hvetur fólk til að sýna aðgát meðan það er að versla og vera með augun opin fyrir allri grunsamlegri hegðun.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka